Guðmundur Arnfinnsson þýðir margt og ávallt vel.

Guðmundur Arnfinnsson þýðir margt og ávallt vel. Hér er „Dáravísa“ eftir Nils Ferlin:

Er vorsólin á himni hló

svo hýr og glöð í bragði,

í drykkjuæði dárinn sló

í dáravegg og sagði:

„Hæ, sjálfumglaða sól, þú skín

og sóar geislum þínum,

ef legg ég aftur augu mín,

þú óðar hverfur sýnum!“

Kötturinn Jósefína Meulengracht Dietrich lætur í sér heyra:

Hvasst er úti, Kári slær á kinn og tásur,

svo lítil kisa króknað getur

kaldur er hann þessi vetur.

Gísli Ásgeirsson er ráðagóður:

Ekki sæmir eðalketti eymdarvælið.

Lausn við þessu fann ég fína:

Farðu í úlpu, Jósefína!

Jósefína svarar um hæl:

Eina læt ég á mig sauma úlpu hlýja

og klæði mig sé kuldinn bitur, –

kisan ráðagóð og vitur.

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason:

Ógn er þegar úti kaldur ýlir vindur

Nefburst mun í nösum titra

þá næðir frost um köttinn vitra

Allt mun skárra er úti fer svo enn

að hlýna

þá næðir ei um nefburst þína

í næturferðum Jósefína

Gunnar J. Straumland yrkir heilræðavísu:

Engum gagnast undanbrögð né orðagjálfur.

Vera skal frekar heill en hálfur,

helst af öllu maður sjálfur.

Magnús Geir Guðmundsson skrifar í Boðnarmjöð á mánudag: „Einkar stillt var og fallegt snemma í morgun norðan heiða, töluvert búið að snjóa um helgina, en veður stillt og frostið ekki of mikið:“

Fannabreiða felur jörð,

fagurbjört og hrein;

þýð, svo ríkir þvert um fjörð,

þögnin sönn og ein.

Ármann Þorgrímsson kveður „aðdáunarvert“ þetta:

Þó að lendi í þrengingum

og þyngjast taki sporið

syngja margir söngva um

sólina og vorið.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson kveður á Boðnarmiði:

Ég hef þennan dýrðar dag,

í dagbók mína skráð.

Því að ég hef ljóð og lag

lokið við í bráð.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is