Icelandair Farþegum fækkar í ár.
Icelandair Farþegum fækkar í ár. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Farþegum Icelandair fækkaði um 5% í febrúar frá því sem var í sama mánuði í fyrra.

Farþegum Icelandair fækkaði um 5% í febrúar frá því sem var í sama mánuði í fyrra. Í tilkynningu frá Icelandair segir að fækkunin skýrist að mestu leyti af fækkun farþega á vegum flugfélagsins til Íslands en eftirspurn hafi ekki aukist í takt við heildarframboðsaukningu á markaði. Þá dróst framboð saman um 1% og sætanýting var 74,3% í febrúar en 75,9% í febrúar í fyrra.

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, segir í samtali við Morgunblaðið flugfarþegum til Íslands ekki hafa fækkað þó að ljóst sé að þeim fjölgi nú hægar. Hann segir fækkun farþega hjá Icelandair komna til vegna verðlags. „Það er mikil samkeppni á markaðnum og framboðsaukning í heild það mikil, að ef þú ætlar að fjölga farþegum þarftu að lækka verðið umfram skynsamleg mörk að okkar mati. Við höfum frekar viljað vera raunsæ í verðlagningu en að horfa eingöngu á markaðshlutdeildina. Hjá okkur er það ekki markmið í sjálfu sér að vaxa á öllum mörkuðum á hverjum tíma, til lengri tíma verður vöxtur að vera arðbær,“ segir Bogi.

Þá segir í tilkynningunni að farþegum Air Iceland Connect fækki einnig um 3% á milli ára. Einnig segir að fjöldi flugferða hafi verið felldur niður í mánuðinum sökum veðurs en sætanýting var 62,6%. Fraktflutningar jukust um 24% á milli ára. Skýrist það af auknum innflutningi til landsins, en einnig hefur verkfall sjómanna á Íslandi á síðasta ári áhrif á samanburðinn. Seldum gistinóttum hjá hótelum félagsins fækkaði einnig um 5% á milli ára.