Nýir bílar Reglulega koma upp tilvik hér á landi þar sem fólk telur sig vera að kaupa yngri bíla en raun ber vitni. Hægt er að deila um hvað er nýr bíll.
Nýir bílar Reglulega koma upp tilvik hér á landi þar sem fólk telur sig vera að kaupa yngri bíla en raun ber vitni. Hægt er að deila um hvað er nýr bíll. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Við uppgötvuðum þetta bara við fyrstu rukkun frá tryggingafélaginu.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Við uppgötvuðum þetta bara við fyrstu rukkun frá tryggingafélaginu. Þá sáum við að bíllinn var 2015-árgerð en ekki 2016-árgerð eins og við héldum, segir Jónas Óskarsson, faðir drengs sem keypti sér Toyota Aygo-bifreið fyrir tæpum tveimur árum.

Frétt Morgunblaðsins í síðustu viku um reglur um skráningu bifreiða hefur vakið talsverða athygli. Í henni kom fram að Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefði um árabil gagnrýnt að skráning bifreiða væri ekki nógu ítarleg. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, lýsti því að aðeins eitt af þrennu þyrfti að vera í skráningarvottorðinu; fyrsti skráningardagur, árgerð eða hönnunarár, eða framleiðsluár. Þetta geti valdið misskilningi og sagði Runólfur að reglulega hefðu komið upp tilvik þar sem fólk teldi sig vera að kaupa yngri bíla en raun bar vitni.

Jónas segir að sonur sinn, Skarphéðinn Óskar, hafi að vel íhuguðu máli keypt sér áðurnefnda Toyota-bifreið. Í maí 2016 hafi hann gengið frá kaupunum en við rukkun frá tryggingafélaginu hafi komið fram að hún hafi verið forskráð í desember árið 2015. Taldi hann sig hafa verið blekktan og vísaði málinu til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa. Í úrskurði nefndarinnar, sem kveðinn var upp í október 2017, einu og hálfu ári síðar, er kröfu Skarphéðins að fá afhenta nýja bifreið árgerð 2016 hafnað.

Grundvallarmisskilningur

Sagan er rakin í úrskurðinum. Skarphéðinn kveðst hafa farið til seljenda í febrúar 2016 og óskað eftir nýrri dökkblárri, fjögurra dyra Toyota Aygo-bifreið, árgerð 2016, en verið tjáð að umrædd bifreið væri ekki til og væri í framleiðslu. Afgreiðsluferlið væri einhverjar vikur og sending væntanleg. Í apríl hefði honum verið tjáð að slík bifreið væri væntanleg með skipi innan tveggja vikna. Í kjölfarið hefði honum verið sagt að hann gæti fengið bifreiðina innan við viku síðar. Úr varð að Skarphéðinn keypti bifreiðina og taldi að framleiðsluár hennar væri 2016. Síðar hefði áðurnefnd forskráning sem var gerð 23. desember komið í ljós. Telur Skarphéðinn augljóst að bifreiðin hafi staðið í geymslu frá áramótum og fram í apríl 2016. Furðulegt sé að hún hafi ekki verið til í febrúar 2016 en hafi samt verið forskráð í desember 2015.

Í andsvörum seljanda, Toyota, segir að um grundvallarmisskilning um skráningu nýrra bifreiða sé að ræða. Seljandi segir að hugtakið „árgerð bíla“ hafi ekki verið notað í fjölda ára heldur sé alltaf miðað við fyrsta skráningardag bifreiðar. Óheppilegt sé að sum tryggingafélög miði við forskráningardag í stað nýskráningardags, enda byrji notkun bifreiðar ekki fyrr en þá.

Kærunefndin leitaði til sérfræðings við úrlausn málsins. Telur sérfræðingurinn galla í skráningu bifreiðarinnar hjá Samgöngustofu að árgerð eða framleiðsluár bifreiðarinnar hafi ekki verið skráð í ökutækjaskrá heldur aðeins forskráningardagur. Framleiðsluár bifreiða miðist við upplýsingar frá framleiðanda en ekki skráningu í einstöku landi sem flytur bifreiðina inn, en það geti verið túlkunaratriði hvaða dagsetning sé notuð, dagsetning verksmiðjunúmers eða dagsetning forskráningar í bifreiðaskrá.