Í tveimur kvikmyndum, sem tilnefndar voru til Óskarsverðlauna á þessu ári, var fjallað um neyðaraðgerð Breta til að flytja brott innikróaða hermenn í Dunkirk í Frakklandi í maí 1940. Önnur myndin heitir einfaldlega Dunkirk , hin The Darkest Hour.

Í tveimur kvikmyndum, sem tilnefndar voru til Óskarsverðlauna á þessu ári, var fjallað um neyðaraðgerð Breta til að flytja brott innikróaða hermenn í Dunkirk í Frakklandi í maí 1940. Önnur myndin heitir einfaldlega Dunkirk , hin The Darkest Hour. Alls voru myndirnar tilnefndar til 14 verðlauna og hrepptu fimm. Þar á meðal fékk Gary Oldman verðlaunin fyrir bestan leik í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands. Báðar eru myndirnar mikið sjónarspil og fjalla um viku þar sem stríðið hefði getað snúist Þjóðverjum í vil, en áhöld eru um áreiðanleika frásagnarinnar.

Sagnfræðingurinn Max Hastings fann að bardagaatriðum í upphafi myndarinnar Dunkirk. Þýski herinn hafi lítið beitt sér þegar hermennirnir voru fluttir brott og ekkert hafi verið barist á jörðu niðri í borginni eða höfninni.

Sagnfræðingurinn Anthony Beevor segir að breskir kvikmyndaleikstjórar beri litla virðingu fyrir „sögulegum sannleika“ og finni hjá sér þörf til „úrbóta“ jafnvel þegar þess sé engin þörf. Hann segir að dregið sé úr þætti breskra herskipa í aðgerðinni til þess að upphefja hlut flota smábáta í eigu almennings. Í raun hafi herskipin sótt megnið af hermönnunum.

Leikstjórinn, Christopher Nolan, segir hins vegar að hann hafi heillast af hinni rómantísku sögu um óbreytta borgara í fararbroddi í björgunaraðgerðinni. Hann hafi sjálfur siglt yfir Ermarsundið á sama stað í litlum báti með konu sinni og segir að það sé „ein erfiðasta og satt að segja hættulegasta lífsreynsla“ ævi sinnar.

Beevor gagnrýnir einnig Darkest Hour og segir að atriði þar sem Winston Churchill ferðast með neðanjarðarlest og tekur að ræða við farþega um rétt og rangt og hvernig eigi að eiga við menn eins og Adolf Hitler sé hlægilegt og uppspuni frá rótum.