Umræður um vantrauststillögu afhjúpuðu að hún var lögð fram á röngum forsendum

Í gær fékk almenningur að horfa á heldur ömurlega uppákomu á Alþingi undir forystu Pírata og Samfylkingar. Flokkarnir báru upp tillögu um vantraust á dómsmálaráðherra en í umræðunum kom glöggt fram að ekkert tilefni var til vantraustsins. Hver stjórnarandstöðuþingmaðurinn af öðrum opinberaði það fyrir alþjóð að hann var aðeins þátttakandi í leikriti sem gekk út á að reyna að valda óróa í ríkisstjórninni og hafði ekkert með störf dómsmálaráðherra að gera. Enda kom fram að ekkert sem máli skipti hafði gerst frá því að þingið í fyrra samþykkti tillögu ráðherra um skipan Landsréttar og að allar upplýsingar sem gátu haft áhrif á þá afgreiðslu lágu fyrir á þeim tíma.

Það kom líka mjög vel fram við atkvæðagreiðsluna að þingmenn stjórnarandstöðunnar voru að kjósa um allt annað en fyrirliggjandi tillögu og sumir þeirra sögðu það berum orðum. Einn sýndi þó virðingarvert sjálfstæði og kaus að elta ekki Pírata og Samfylkingu.

Þingmenn tala gjarnan um mikilvægi þess að auka virðingu og traust Alþingis. Það er æskilegt markmið, en óhætt er að fullyrða að það hafi ekki náðst með vanhugsaðri og illa rökstuddri tillögu gærdagsins.