Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í gærmorgun að senda frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um umskurð barna í umsagnarferli.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í gærmorgun að senda frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um umskurð barna í umsagnarferli. Er nú unnið að því að setja saman lista yfir þær stofnanir og aðila sem nefndin kemur til með að óska eftir umsögn frá. Að auki er öllum heimilt að senda nefndinni umsögn sína.

Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir í samtali við mbl.is að þetta hafi verið í fyrsta skiptið sem frumvarp Silju kom til kasta nefndarinnar. Það bíði enn efnislegrar umræðu meðan beðið verði eftir umsögnum. Ítrekaði Páll að öllum væri frjálst að senda inn umsagnir. Silja lagði fram, ásamt átta þingmönnum úr Framsóknarflokki, Vinstri grænum, Flokki fólksins og Pírötum, frumvarp um að umskurður barna almennt verði bannaður með lögum. Frumvarpið hefur vakið sterk viðbrögð bæði hér á landi og einnig út fyrir landsteinana.Yfir 1.100 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, ásamt rúmlega 400 læknum, hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið.