[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Framundan er veisla fyrir handboltafólk þegar líður á vikuna. Dregur þá til tíðinda Coca Cola-bikarkeppninni. Eins og undanfarin ár fara fram undanúrslit og úrslit hjá báðum kynjum á þremur dögum.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Framundan er veisla fyrir handboltafólk þegar líður á vikuna. Dregur þá til tíðinda Coca Cola-bikarkeppninni. Eins og undanfarin ár fara fram undanúrslit og úrslit hjá báðum kynjum á þremur dögum. Við það má bæta að úrslitaleikir í yngri flokkum fara fram á sunnudeginum. Öll dagskráin verður í Laugardalshöllinni.

Á morgun fara fram undanúrslitin hjá konunum en þar mætast annars vegar Fram og ÍBV klukkan 17.15 en hins vegar Haukar og KA/Þór kl. 19.30. Á föstudaginn mætast Haukar og ÍBV klukkan 17.15 en Selfoss og Fram klukkan 19.30. Eins og sjá má eru þrjú félög sem eiga tvö lið í undanúrslitum að þessu sinni.

Kvennaflokkur

ÍBV : Liðið er í 3.-4. sæti í deildinni aðeins tveimur stigum á eftir efstu liðunum. ÍBV virðist því vera með lið sem er nægilega sterkt til að vinna titil á þessu tímabili. Liðið fær ábyggilega góðan stuðning í höllinni og þjálfarinn Hrafnhildur Skúladóttir þekkir það að vinna titla sem leikmaður.

Fram : Liðið er í 1.-2 . sæti í deildinni. Margir mjög reyndir leikmenn sem barist hafa um titlana hérlendis oftar en einu sinni. Auk þess eru tvær af öflugustu leikmönnum landsins, Karen Knútsdóttir og Steinunn Björnsdóttir, nýlega komnar á ferðina með liðinu. Þjálfarinn Stefán Arnarson hefur þrívegis orðið bikarmeistari sem þjálfari.

Haukar : Eru eins og ÍBV aðeins tveimur stigum á eftir toppliðunum í deildakeppnina. Liðið hefur verið sterkara í vetur en búist var við eftir að hafa misst Ramune Pekarskyte, lykilmann til margra ára. Leikmenn eins og Guðrún Erla Bjarnadóttir hafa sprungið út og spilaði hún sig inn í landsliðið. Þjálfarinn Elías Már Halldórsson er nýliði í meistaraflokksþjálfun en var sigursæll leikmaður.

KA/Þór : Eina b-deildarliðið sem komst í undanúrslitin í Laugardalshöllinni að þessu sinni. Í liðinu má finna reynda leikmenn sem hafa gert það gott í efstu deild. Stórsigur liðsins á Fjölni í 8-liða úrslitum gefur vísbendingu um að liðið sé álíka sterkt og lið í efstu deild. Þjálfarinn Jónatan Þór Magnússon er aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins.

Karlaflokkur

Haukar : Vel mannað lið sem hefur verið sigursælt um langa hríð. Eins og áður eru Haukar til alls líklegir, þeir hafa ekki verið á toppnum í deildinni í vetur en þar er liðið í 4. sæti. Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson gæti reynst mikilvægur. Þjálfarinn Gunnar Magnússon hefur bæði orðið Íslands-og bikarmeistari sem þjálfari.

ÍBV : Eitt allra sterkasta lið landsins og hefur leikið mjög vel eftir áramót. ÍBV er fjórum stigum á eftir toppliðinu í deildinni í 3. sæti en á leik til góða. Mikið er að gera hjá liðinu þar sem það er einnig í Evrópukeppni og spurning hvaða áhrif leikjaálagið hefur. Fær væntanlega góðan stuðning á pöllunum. Þjálfarinn Arnar Pétursson varð Íslandsmeistari sem leikmaður.

Selfoss : Að margra mati eitt mest spennandi liðið í vetur. Liðið er í 2. sæti í deildinni en ekki er þó ýkja mikil reynsla í leikmannahópnum. Haukur Þrastarson verður ekki með vegna meiðsla. Liðið fær væntanlega góðan stuðning á pöllunum en það hefur aldrei unnið stóran titil í handboltanum. Þjálfarinn Patrekur Jóhannesson hefur orðið bikarmeistari bæði sem leikmaður og þjálfari.

Fram : Liðið sem þykir síst líklegt til að vinna bikarinn af þeim fjórum sem eftir eru. Liðið er í 9. sæti í deildinni og hefur þar aðeins unnið 5 af 20 leikjum. En í bikarnum sló liðið bæði út Aftureldingu og FH. Stemningslið þegar vel gengur eins og sást í úrslitakeppninni í fyrra. Þjálfarinn Guðmundur Helgi Pálsson var kjörinn þjálfari ársins í fyrra en hefur ekki orðið bikarmeistari.