Alþingi Sigríður Á. Andersen og Lilja Alfreðsdóttir við umræður um vantraust á dómsmálaráðherra.
Alþingi Sigríður Á. Andersen og Lilja Alfreðsdóttir við umræður um vantraust á dómsmálaráðherra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þessi vantrauststillaga sýnir að valdið til að skipa dómara á að vera í höndum ráðherra en ekki hjá andlitslausri stjórnsýslunefnd.

„En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þessi vantrauststillaga sýnir að valdið til að skipa dómara á að vera í höndum ráðherra en ekki hjá andlitslausri stjórnsýslunefnd. Ráðherrann er hægt að draga til ábyrgðar eins og flutningsmenn reyna að gera með þessum hætti. Hæfnisnefndir verða ekki dregnar til ábyrgðar,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í ræðu við umræður um vantrauststillögu á dómsmálaráðherra.

Hún fór yfir tillögu sína til Alþingis um skipan dómara við Landsrétt. Hún hefði talið að dómarareynslu umsækjenda hefði ekki verið gefið nægt vægi. Við breytingu sína hefði hlutur karla og kvenna í Landsrétti jafnast.

Varðandi rannsókn á málinu sem Hæstiréttur taldi ekki nægjanlega segist hún hafa innt af hendi viðamikla rannsókn á umsóknum og öðrum gögnum og talið sig hafa rannsakað málið nægjanlega áður en hún lagði tillögu sína fyrir Alþingi.

Vilja ábót á dómsniðurstöðu

„Þegar menn telja nú dóm Hæstaréttar frá því í desember vera tilefni til afsagnar minnar eða vantrausts Alþingis á mér þá er á ferðinni einhver misskilningur um þrígreiningu ríkisvaldsins. Ráðherra hefur ekki síðasta orðið um túlkun á lagareglum þegar hann tekur sínar ákvarðanir.

Þegar um matskenndar reglur er að ræða og ágreiningur er um túlkun þeirra kemur auðvitað fyrir að niðurstaða stjórnvalds sé borin undir dómstóla og það eru dómstólar sem hafa þá lokaorðið. Þetta á ekki síst við um ýmsar matskenndar reglur stjórnsýsluréttarins. Jafn eðlilegt er að stundum dæmi dómstólar stjórnvaldi, ráðherra, sveitarfélagi, ríkisstofnun, í óhag. Dómstólar eru stundum ósammála. Þar er einfaldlega réttarríkið að verki og við höfum komið okkur saman um að una niðurstöðunni.

Þessi tillaga um vantraust sem við ræðum hér sýnist mér til marks um að háttvirtir flutningsmenn uni ekki niðurstöðu dómstóla og vilji fá einhverskonar ábót á dómsniðurstöðuna. Menn hafa reynt að kreista slíka ábót út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umboðsmanni Alþingis,“ sagði Sigríður.