Kim Jong-un
Kim Jong-un
Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Leiðtogi einræðisstjórnarinnar í Norður-Kóreu, Kim Jong-un, hefur sagt sendinefnd frá Suður-Kóreu að hann vilji hefja viðræður við stjórnvöld í Bandaríkjunum um samning sem fæli í sér að Norður-Kóreumenn afsöluðu sér kjarnavopnum gegn því að öryggi einræðisstjórnarinnar yrði tryggt.

Þjóðaröryggisráðgjafi stjórnvalda í Suður-Kóreu, Chung Eui-yong, skýrði frá þessu í gær. Hann sagði að Kim hefði einnig sagt að hann vildi eiga fund með forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, í apríl.

Viðbrögð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við tíðindunum voru varfærnisleg. Bandarískir embættismenn hafa látið í ljós efasemdir um þíðuna sem hefur verið í samskiptum Kóreuríkjanna að undanförnu og telja að markmið einræðisstjórnarinnar með því að bæta samskipti landanna tveggja sé að reka fleyg á milli Bandaríkjanna og Suður-Kóreu.

Suðurkóreskir sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu eru efins um að einræðisstjórnin sé í raun og veru tilbúin að afsala sér kjarnavopnum. „Þetta eru eintóm látalæti og brella til að komast hjá refsiaðgerðum,“ sagði einn þeirra, Yoo Dong-ryul. „Norður-Kóreustjórn hefur aldrei staðið við neina samninga sem hún hefur undirritað.“

Suðurkóreskur sérfræðingur í öryggismálum, Kim Dong-yub, sagði að Norður-Kóreustjórn kynni að reyna að reka fleyg á milli Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna með því að krefjast þess að öryggistryggingin fæli meðal annars í sér að bandarískir hermenn færu frá Suður-Kóreu.