Vík Nýbyggingin fremst. Fyrir er á staðnum meðferðarstöð ætluð konum.
Vík Nýbyggingin fremst. Fyrir er á staðnum meðferðarstöð ætluð konum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ný meðferðarstöð SÁÁ í Vík á Kjalarnesi var tekin í notkun á fimmtudag í síðustu viku, 1. mars.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ný meðferðarstöð SÁÁ í Vík á Kjalarnesi var tekin í notkun á fimmtudag í síðustu viku, 1. mars. Nánast allt starf samtakanna hefur nú verið flutt á höfuðborgarsvæðið en endurhæfingarstöðinni á Staðarfelli í Dölum var lokað jafnhliða flutningum í Vík. Alls eru rúm fyrir 40 sjúklinga í nýbyggingunni á Vík sem er um 3.000 fermetrar. Salarkynni eru björt og rúmgóð, og allir sjúklingar hafa eigið herbergi. Þá hefur 800 fermetra bygging í Vík, sem var þar fyrir, verið endurnýjuð og reist viðbygging með aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Þar er pláss fyrir 21 konu sem kemur til meðferðar. Algjör aðskilnaður er þó milli kynjanna í meðferðinni.

Starfið verður sérhæfðara

Flutningarnir frá Staðarfelli í síðustu viku gengu greiðlega fyrir sig og tóku aðeins daginn, svo meðferð sjúklinganna raskaðist aldrei. „Við getum gert meðferðarstarfið sérhæfðara og heildstæðara með aðkomu fleiri sérfræðinga, nú þegar starfsemin er komin á nánast einn stað. Staðarfell hefur dugað okkur vel núna í hátt í 40 ár, en að ein deild í starfseminni sé í 200 kílómetra fjarlægð hafði auðvitað hindranir í för með sér,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir SÁÁ.

Í starfi SÁÁ er gangurinn sá að fyrst eru sjúklingar í að meðaltali 10 daga á sjúkrahúsinu Vogi. Fara svo ef ástæða þykir til í 28 daga dvöl á Vík. „Þegar kemur að framhaldsmeðferð er samt mikilvægt að fólk sé komið í jafnvægi, bæði varðandi líkamlega og andlega heilsu. Meðferð hér er mikil vinna með fundum, hópastarfi, viðtölum og fræðslu frá morgni til kvölds,“ segir Torfi Hjaltason, dagskrárstjóri í Vík. Meðferðarstarfið segir hann vera í stöðugri þróun, en sú lína sem þar sé fylgt þyki gefa góða raun.

Vandi margra sjúklinga er mikill

Alls koma um 1.700 manns í meðferð hjá SÁÁ á ári hverju og fer þörfin vaxandi.

„Framboðið af vímuefnum er mikið, áfengi er algengasta vandamálið en annars er þetta allt í bland; ólöglegir vímugjafar og lyf. Vandi margra sjúklinga okkar er mikill og oft flókinn, bæði félags- og heilsufarslega. Aldur þeirra sem leita meðferðar er lágur, meðalaldurinn er um 35 ár, en sjúklingarnir eru þó á öllum aldri. Sumir þeirra yngri hafa í raun aldrei náð að fóta sig í samfélaginu, hvorki með fjölskyldu, í námi né á vinnumarkaði. Þurfa því mikla aðstoð til að komast út í lífið að nýju ef vel á að vera,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir.