Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Húsnæðisstefna meirihlutans í borgarstjórn gengur út á að þétta byggð og koma um leið í veg fyrir að nýtt land verði brotið undir byggð. Þessu hefur verið fylgt fast eftir og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Húsnæðisstefna meirihlutans í borgarstjórn gengur út á að þétta byggð og koma um leið í veg fyrir að nýtt land verði brotið undir byggð.

Þessu hefur verið fylgt fast eftir og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Byggingaframkvæmdir ganga afar hægt og nýjar íbúðir eru dýrar.

Borgarstjóri viðurkennir að framkvæmdir hafi „verið í algjöru frosti á árunum eftir hrun“ en telur að nú sé að bresta á með miklu uppbyggingarskeiði. Hann lætur þess hins vegar ekki getið að frostið í Reykjavík hefur varað mun lengur en í nágrannasveitarfélögunum vegna fyrrnefndrar stefnu borgarinnar.

Hann nefnir ekki heldur, nú þegar hann varpar upp enn einni glærusýningunni um uppbyggingaráformum í borginni, að slíkar glærur hefur hann margoft birt áður án þess að bólað hafi á framkvæmdum.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram hjá sérfræðingum um fasteignamarkaðinn, meðal annars Ara Skúlasyni hjá Landsbankanum, að of mikið af þeim íbúðum sem fyrirhugað sé að byggja verði of dýrar.

Ekki sé verið að byggja fyrir fyrstu kaupendur, sem muni því ekki komast út á fasteignamarkaðinn. Þetta er afleiðing kreddukenndu þéttingarstefnunnar og verður viðvarandi vandamál ef stefna núverandi meirihluta verður áfram við lýði.