Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Líkt og fram kom í fréttum í gærmorgun lögðu þingflokkar Pírata og Samfylkingar fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra vegna framgöngu hennar í landsréttarmálinu.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Líkt og fram kom í fréttum í gærmorgun lögðu þingflokkar Pírata og Samfylkingar fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra vegna framgöngu hennar í landsréttarmálinu. Tillagan var send inn laust fyrir miðnætti í fyrrakvöld.

Fram kemur á vef Alþingis að vantraust á ríkisstjórn er lagt fram og afgreitt sem þingsályktunartillaga. Um meðferð vantrauststillagna gildi ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Yfirleitt séu tillögurnar mjög stuttorðar.

„Frá 1944 hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur um vantraust á ríkisstjórn í 24 skipti. Þar af var ein tillaga um vantraust á alla ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1994 en henni var vísað frá að tillögu forsætisráðherra. Á tímabilinu var aðeins ein vantrauststillaga samþykkt. Það var árið 1950 þegar ríkisstjórn Ólafs Thors fór frá. Árið 1974 rauf Ólafur Jóhannesson þing áður en vantrauststillaga á ríkisstjórn hans kom til umræðu á þinginu,“ segir orðrétt á vef Alþingis, þar sem fjallað er um vantrauststillögur.

Þar kemur einnig fram að árið 2016 voru fluttar tvær vantrauststillögur, fyrst á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og síðar á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Sömu flutningsmenn voru að báðum tillögunum: Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Óttar Proppé og Birgitta Jónsdóttir.