Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Eftir Óla Björn Kárason: "Þrepaskipt tekjuskattskerfi með persónuafslætti og tekjutengingum vinnur, ólíkt því sem margir halda, gegn launafólki sem lægstu tekjurnar hefur."

Það er rétt sem segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að launahækkanir undanfarinna ára, hækkun á lífeyrisframlagi atvinnurekenda og sterkt gengi, hafa „dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins, einkum útflutningsgreina“. Einmitt þess vegna er að talið mikilvægt að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja samhliða því að bæta kjör almennings í kjarasamningum. Til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga er lögð áhersla á tvennt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: Annars vegar að lækka neðra þrep tekjuskatts og hins vegar að lækka tryggingagjald.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 27. febrúar, í tengslum við mat á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, er gengið nokkuð lengra í fyrirheitum um lækkun tekjuskatts. Það kemur til greina að stokka upp spilin. Orðrétt segir í yfirlýsingunni:

„Hafin verður endurskoðun á tekjuskattskerfinu með áherslu á lækkun skattbyrði og mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa (lágtekjur og lægri millitekjur). Meðal þess sem skoðað verður er að sett verði á fót heildstætt kerfi er taki jafnt til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar, hvort heldur er fyrir íbúðareigendur eða leigjendur. Þessi vinna verður undir forystu fjármála- og efnahagsráðuneytis í samstarfi við samtök launþega í því skyni að sem breiðust samstaða geti náðst um áherslur og endanlegar breytingar. Ætlunin er að ljúka þessari vinnu á haustmánuðum 2018 áður en fjárlög ársins 2019 verða afgreidd.“

Skattkerfið skorið upp

Þrepaskipt tekjuskattskerfi einstaklinga með persónuafslætti og tekjutengdum vaxta-, húsnæðis- og barnabótum vinnur, ólíkt því sem margir halda, gegn launafólki sem lægstu tekjurnar hefur. Ég hef leitt að því rök að jaðarskattar auki launamuninn fremur en að þeir jafni kjörin. Verst er að fólk festist í gildru jaðarskatta – því er refsað í hvert sinn sem það nær fram kjarabótum í viðræðum við atvinnurekendur.

Hversu mikið er eftir í launaumslaginu eftir að skattar og iðgjöld í lífeyrissjóði hafa verið greidd, skiptir launamanninn meira máli en hversu há launin eru í krónutölu. Ráðstöfunartekjur ráða afkomunni en ekki laun fyrir skatta og gjöld. En fleira spilar hér inn í. Hvernig samspil launaþróunar og barna-, vaxta- og húsnæðisbóta er háttað hefur veruleg áhrif. Tekju- og eignatengingar þessara bótaflokka eru með þeim hætti að þeim sem síst skyldi er refsað um leið og hagur þeirra vænkast. Jaðarskattar éta oft upp allan ábatann og á stundum gott betur. Þeir sem standa sterkast að vígi á vinnumarkaði eiga hins vegar möguleika á að fá bættan „skaða“ sem háir jaðarskattar og/eða hækkun tekjuskatts valda. Þrepaskipt tekjuskattskerfi eykur vandann enn frekar – refsigleði skattkerfisins magnast.

Það er með hliðsjón af þessum innbyggðu göllum sem ég hef í mörg ár barist fyrir því að innleiddur sé flatur tekjuskattur – ein almenn skattprósenta. Í janúar síðastliðnum lagði ég til að samhliða flatri tekjuskattsprósentu yrði persónuafslættinum breytt til að lagfæra brotalöm í kerfinu. Fyrir þann sem er á lágmarkslaunum skiptir persónuafslátturinn meira máli en fyrir þann sem hefur á aðra milljón á mánuði. En þegar persónuafslátturinn hækkar, þá gengur hækkunin upp allan tekjustigann – láglaunamaðurinn fær sömu krónutöluhækkun og sá sem hærri launin hefur. Einmitt þess vegna er það gríðarlega „dýrt“ fyrir ríkissjóð í hvert skipti sem persónuafslátturinn hækkar.

Svipaða sögu er að segja um hækkun skattþrepa í samræmi við hækkun launavísitölu svo komið sé í veg fyrir að skattbyrði (ekki síst millitekjufólks) hækki. Þeir sem lökust hafa kjörin njóta þeirrar hækkunar lítt eða ekki, en hún getur skipt annað launafólk miklu.

Stiglækkandi persónuafsláttur

Í Morgunblaðsgrein í janúar hélt ég því fram að flatur tekjuskattur með stiglækkandi persónuafslætti væri skynsamlegur. Samhliða uppstokkun á tekjutengdu bótakerfi virðist hagkvæmara og réttlátara að ónýttur persónuafsláttur sé greiddur út. Breytingar í þessum anda gera skattkerfið bæði einfaldara og réttlátara. Skattbyrðin verður misjöfn. Þeir sem eru með laun undir skattleysismörkum greiða ekkert, (fá hugsanlega greiddan út ónýttan persónuafslátt og eru því með neikvæða skattbyrði). Eftir því sem tekjur eru hærri því þyngri verður skattbyrðin (raunveruleg skattprósenta) þar sem persónuafslátturinn lækkar eftir tekjum. Við ákveðnar tekjur fellur persónuafslátturinn út að fullu og þá verður skattprósentan flöt – sú sama.

Ég fæ ekki betur séð en að hugmynd af þessu tagi falli vel að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar. Kerfisbreyting af þessu tagi verður ekki gerð í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins, en því verður vart trúað að forystumenn launþegasamtaka taki ekki opnum örmum hugmyndum um uppskurð skattkerfisins, sem felur í sér hækkun ráðstöfunartekna þeirra sem lægstu launin hafa.

Undir forystu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra voru stigin mörg mikilvæg skref til að einfalda skattkerfið á árunum 2013 til 2016. Í upphafi síðasta árs féll milliþrep í tekjuskatti einstaklinga niður sem jók ráðstöfunartekjur stórs hluta launafólks. Almenn vörugjöld voru felld niður, tollar af fatnaði og skóm heyra sögunni til. Kaupmáttur heimilanna jókst. Efsta þrep virðisaukaskattsins var lækkað úr 25,5% í 24% og hefur aldrei verið lægra. Neðra þrepið var hækkað samhliða því sem skattstofninn var breikkaður.

Tryggingagjald hefur lækkað úr 8,65% árið 2011 í 6,85%. Tryggingagjaldið er ekki annað en skattur á laun og störf. Ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit um frekari lækkun gjaldsins enda er það enn mun hærra en það var árið 2008; 5,34%. Þegar tekin er ákvörðun um lækkun tryggingagjalds skiptir miklu að sú lækkun komi fyrst og fremst litlum og meðalstórum fyrirtækjum til góða, enda þungur baggi.

Verkefnin í skattamálum eru fjölmörg, þótt þar vegi þyngst einföldun á tekjuskattskerfi og lækkun tryggingagjalds. Fjölmörg gjöld eru lögð á fyrirtæki og einstaklinga, sem eru fremur til óþurftar og gefa takmarkaðar tekjur. Ýmis er hægt að fella þau niður eða sameina. Allt til að gera lífið bærilegra og vonandi sanngjarnara.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óla Björn Kárason