Aðalfundur Samtakanna '78 fór fram um síðustu helgi. Þar var stjórn kosin til næstu tveggja ára og var María Helga Guðmundsdóttir endurkjörin formaður með öllum greiddum atkvæðum.

Aðalfundur Samtakanna '78 fór fram um síðustu helgi. Þar var stjórn kosin til næstu tveggja ára og var María Helga Guðmundsdóttir endurkjörin formaður með öllum greiddum atkvæðum.

Fjölbreytt starf fer fram á vegum samtakanna en hápunktur ársins verður í vor þegar 40 ár verða liðin frá stofnun Samtakanna '78.

Í ræðu sinni á fundinum sagði María að á þessum árum hefði náðst ótrúlegur árangur í baráttu hinsegin fólks fyrir mannréttindum. Í þá daga hefðu viðhorfin í þjóðfélaginu verið slík að margir neyddust til að flýja land undan ofsóknum. Síðan hefði margt breyst, nú leitaði hingað fólk eftir alþjóðlegri vernd vegna kynhneigðar eða kynvitundar og stjórnvöld væru með það yfirlýsta markmið að koma Íslandi í fremstu röð í réttindamálum hinsegin fólks.

„Um leið og við gleðjumst yfir árangri í baráttunni er margt sem minnir okkur á að halda baráttunni áfram. Líkamsárás á homma í miðborg Reykjavíkur og hatursfull ummæli á samfélagsmiðlum sem leggja hinsegin fræðslu og barnaníð að jöfnu minna okkur á að fordómar og hatur þrífast allt of víða í samfélaginu,“ sagði María m.a. í ræðu sinni.

Bætti hún við að þótt meðvitund og viðurkenning á trans og intersex fólki færi vaxandi í íslensku samfélagi væru nauðsynlegar réttarbætur fyrir þessa hópa enn ekki í höfn. bjb@mbl.is