[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Hugmyndir koma fram í tillögu að nýju aðalskipulagi í Vestmannaeyjum 2015-2035 um að stækka miðbæinn með því að grafa út hluta af nýja hrauninu við Kirkjuveg.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Hugmyndir koma fram í tillögu að nýju aðalskipulagi í Vestmannaeyjum 2015-2035 um að stækka miðbæinn með því að grafa út hluta af nýja hrauninu við Kirkjuveg. Einnig er þar fjallað um þéttingu byggðar við Safnahúsið og á malarvellinum við Löngulág. Þá eru settar fram hugmyndir um nýjar stórskipahafnir fyrir flutningaskip og skemmtiferðaskip við Eiðið og í Skansfjöru og brimvarnargarð út frá nýja hrauninu. Formaður skipulagsráðs í Vestmannaeyjum er Margrét Rós Ingólfsdóttir.

Opið hús verður í Einarsstofu í anddyri Safnahússins við Ráðhúströð í dag, miðvikudaginn 7. mars milli kl. 14 og 18. Þar munu hönnuðir skipulagsins kynna efnistök og svara fyrirspurnum áhugasamra. Skipulagstillagan verður til sýnis á sama stað og hjá embætti skipulags- og byggingarfulltrúa, Skildingavegi 5, til og með 11. apríl 2018. Einnig er tillagan aðgengileg hjá Skipulagsstofnun og á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Hægt er að gera athugasemdir við tillöguna til 11. apríl 2018.

Höfn við Eiðið besta lausnin

Um hafnarframkvæmdir segir m.a.: „Það er mat sveitarfélagsins að höfn við Eiðið sé besta lausnin til framtíðar. Í dag er ófremdarástand í Vestmannaeyjahöfn vegna fjölgunar á skipakomum. Vestmannaeyjar eru háðari höfn en flest önnur byggðalög. Bæta þarf aðstöðu til að stærri flutningaskip geti lagst að í Eyjum en geta í dag, vegna takmarkana t.d. á aðstöðu til að snúa skipum á innri höfninni. Vaxtartækifæri Vestmannaeyja eru algjörlega háð höfninni og stækkunarmöguleikum.“

Svo áfram séu rakin dæmi um umfjöllunarefni í tillögunni má nefna að gert er ráð fyrir stjörnuskoðun austan við Eldfell. Einnig er í tillögunni fjallað um nýtt sýningarsvæði fyrir sjódýr í kvíum í Klettsvík. Afþreyingar- og ferðamannasvæði við Eldheima, Skansinn og í Herjólfsdal verða afmörkuð. Grunnnet með aðalleiðum fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi er skilgreint í tillögunni.

Gert er ráð fyrir nýju landbúnaðarsvæði þar sem áður var borað eftir heitu vatni norðaustur af flugvelli og einnig við vesturenda flugbrautar. Reiknað er með stækkun íbúðarsvæða sunnan við Hraunhamar og sunnan við Suðurgerði og nýju athafnasvæði á leiðinni út á flugvöll.

Hámarksfjöldi gesta úr farþegaskipum

Í sérstökum rammahluta um ferðarþjónustu er m.a. mörkuð stefna um að heimagisting í íbúðarbyggð sé heimil ef ekki er gistirými í fleiri en fimm herbergjum. Einnig að settar verði reglur um hámarksfjölda gesta úr farþegaskipum sem geta komið í land á einum degi. Þá eru hugmyndir um að þróa þemaleiðir fyrir gangandi og hjólandi, t.d. söguleið, hraunleið, safnaleið, fjölskylduleið, hringleið og fuglaleið.

Samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands voru íbúar í Vestmannaeyjum árið 1990 rétt um 5.000 en árið 2000 hafði þeim fækkað í 4.600. Frá 2000-2016 hefur íbúum fækkað um u.þ.b. 250 en fjölgun hefur þó verið ár frá ári síðan 2008. Áætlað er íbúar í Vestmannaeyjum geti orðið um 5.100 við lok skipulagstímabilsins árið 2035.