Knattspyrnumenn virðast í síauknum mæli skipta sér í tvær andstæðar fylkingar þegar umræðan snýst að því hvernig lið eigi að spila til árangurs. Úrslitin skipta suma öllu máli, tilgangurinn helgar meðalið.
Knattspyrnumenn virðast í síauknum mæli skipta sér í tvær andstæðar fylkingar þegar umræðan snýst að því hvernig lið eigi að spila til árangurs.

Úrslitin skipta suma öllu máli, tilgangurinn helgar meðalið. Í lok tímabils er frammistaðan afstæð ef þú stendur uppi sem sigurvegari. Menn og konur sem fylgja þessum hugmyndum eru pragmatísk.

Frammistaðan skiptir aðra jafn miklu ef ekki meira máli, án hennar þykir árangurinn innantómur. Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði sagði séra Friðrik Friðriksson í upphafi síðustu aldar, orð sem rómantískari áhugamenn halda gjarnan á lofti.

José Mourinho er einn þeirra sem verða gjarnan helsta deilumál manna á kaffistofum eftir knattspyrnu helgarinnar. Sá portúgalski er rótfastur í fyrri hópnum og veldur alltaf sundurlyndi meðal áhugamanna, jafnvel stuðningsmanna eigin liðs.

Lærisveinar hans í Manchester United sitja í 2. sæti ensku deildarinnar og mótherjar næstu helgar, erkifjendurnir í Liverpool, sæti neðar. Miðað við umfjöllun fjölmiðla mætti þó halda að stirður og þunglamalegur fótbolti fýlupúkans frá Setúbal hafi skilað liðinu neðsta sæti. Á meðan er alþýðumaðurinn Jürgen Klopp vegsamaður og upphafinn á milli þess sem Bítlavinirnir misstíga sig gegn lakari liðunum og í úrslitaleikjum.

„Skáldin eru mörg í knattspyrnuheiminum“ sagði José Mourinho á sínum tíma og vísaði þar til mælskra blaðamanna sem lofsyngja gjarnan aðferðafræði annarra en Portúgalans. „En þau vinna ekki marga titla,“ bætti hann við.