Viktoría Jensdóttir
Viktoría Jensdóttir
Eftir Viktoríu Jensdóttur: "Íbúar í Garðabæ eru ánægðir með þjónustu leikskólanna. Það er mikilvægt að horfa á það sem vel er gert en líka að halda áfram að gera betur."

Leikskólinn er fyrsta skólastigið. Þar er grunnurinn lagður að frekara námi og framtíð einstaklingsins í samfélaginu. Umræðan um leikskólann og starfsumhverfi hans hefur átt undir högg að sækja og skort hefur á umræðu um það gróskumikla starf sem þar er unnið.

Í Garðabæ er lögð rík áhersla á góða þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Í þjónustukönnun sem unnin var af Gallup í árslok 2017 kemur fram að íbúar í Garðabæ voru að meðaltali 12 prósentustigum ánægðari en íbúar í öðrum sveitarfélögum með þjónustu leikskólanna. Meðal þess sem mikil ánægja hefur verið með er að leikskólunum er ekki lokað á sumrin. Til að styðja við starfsemina á sumrin hafa verið ráðnir í hvern leikskóla flokksstjórar sem halda utan um sumarstarfið og skipuleggja það undir handleiðslu skólastjórnenda.

Lögð er áhersla á að styðja við starfsemi leikskóla með fjölbreyttum hætti, hefur þar m.a. verið horft til þróunar á leikskólastarfinu, nýliðunar leikskólakennara og starfsumhverfisins. Þróunarsjóður leikskóla var settur á laggirnar árið 2015 og hefur verið veitt úr honum alls 24 milljónum til 38 verkefna. Áhersluþættir eru settir fram fyrir hvert úthlutunarár og eru þeir byggðir á grunnstoðum menntunar. Á Menntadegi sem haldinn er að hausti ár hvert eru þau verkefni sem hlotið hafa styrki kynnt og stendur til að gera lokaskýrslur verkefnanna aðgengilegar á nýjum vef Garðabæjar í mars nk. Þróunarsjóðurinn er mikil innspýting í þróunarstarf leikskólanna, verkefnin eru fjölbreytt, allt frá hönnun á sögupokum yfir í vísindakennslu en einnig má nefna að nú er unnið að þremur langtímaverkefnum í samstarfi við Háskóla Ísland ásamt fjölda annarra áhugaverðra verkefna. Auk þróunarsjóðsins hefur hver leikskólastjóri til umráða sérstaka fjárheimild sem hann nýtir til að styðja við skólastarfið.

Til að efla starfsumhverfið og nýliðun leikskólakennara hefur Garðabær tekið ákvörðun um að beita sér fyrir því að styrkja einstaklinga til náms í leikskólakennarafræðum. Styrkir þessir felast m.a. í afslætti af vinnuframlagi án þess að laun séu skert, bóka- og skráningagjaldsstyrk og eingreiðslum. Til að fjölga karlmönnum í leikskólum var stofnaður hópurinn „Karlmenn í leikskólum“ og hefur einn fræðslufundur verið haldinn, fyrirhugað er áframhaldandi starf við að gera leikskólann áhugaverðan starfsvettvang fyrir bæði kynin.

Garðabær hefur verið í fararbroddi með að bjóða börnum frá 12 mánaða aldri leikskólapláss. Það kallar á breytt starfsumhverfi að bjóða svo ungum börnum dvöl og hefur verið unnið skipulega að því. Lagður er hiti í gólf á deildum og skiptiaðstaða endurgerð til að koma sem best til móts við þarfir yngstu barnanna. Garðabær hefur ávallt lagt áherslu á fjölbreytt rekstrarform, á leikskólastiginu eru reknir þrír sjálfstætt starfandi skólar og hafa þeir aðgang að þróunarsjóðnum. Lagt er upp með góða samvinnu milli leikskóla og litið svo á að mismunandi rekstrarform auðgi skólasamfélagið í sveitarfélaginu.

Til að byggja upp og móta góða skólaþjónustu þarf að eiga sér stað samtal meðal þeirra sem að henni koma. Í dag, 7. mars, verður haldið skólaþing í Garðabæ þar sem foreldrum og skólasamfélaginu gefst kostur á að ræða saman um helstu áherslur í skólastarfinu.

Það er mikilvægt að horfa til framtíðar við mótun skólastarfs, samfélagsbreytingar eru örar og ekki alltaf ljóst hvernig við getum búið börnin okkar sem best undir komandi framtíð. Það er hinsvegar enginn vafi á því að leikskólastigið er mikilvægt aldursskeið sem beina þarf sjónum að, það er ávinningur fyrir allt samfélagið. Garðabær hefur eins og fram hefur komið unnið markvisst að eflingu leikskólaumhverfisins og haft að leiðarljósi velferð barna og fjölskyldna þeirra.

Hvernig stutt er við menntun og uppeldi ungra barna er grundvallaratriði, þar er leikskólinn í lykilhlutverki.

Höfundur er formaður leikskólanefndar í Garðabæ.