Atli Heiðar Þórsson fæddist 12. nóvember 1959. Hann lést 27. febrúar 2018.

Útför Atla fór fram 5. mars 2018.

Mín fyrstu kynni af Atla voru þegar við réðum hann til starfa hjá Hug hf. rétt fyrir síðustu aldamót. Samstarfsmaður okkar hafði mælt með honum. Þetta voru mikil uppgangsár í okkar geira, upplýsingatækninni. Starfsmönnum fjölgaði jafnt og þétt og viðskiptavinirnir kölluðu eftir meiri og meiri þjónustu. Við höfðum fram að þessu einbeitt okkur að tækniþjónustunni en minna hafði farið fyrir því að kenna á nýju kerfin sem við vorum að setja í gang hjá viðskiptavinum. Atli var einmitt ráðinn til þess að sinna þeim verkefnum. Skemmst er frá því að segja að Atli var fljótur að vinna traust bæði samstarfsmanna og viðskiptavina. Allir áttuðu sig fljótt á því að hann bjó yfir mikilli þekkingu á bókhaldi og hvernig best væri að haga verklagi þannig að kerfin sem verið var að innleiða myndu nýtast sem best. Viðmót Atla einkenndist af ljúfmennsku og græskulausum húmor. Ég veit að hann eignaðist marga góða félaga á þessum árum.

Atli var Bliki – með mjög stórum staf! Vann ómælda vinnu fyrir félagið sitt í ótal verkefnum. Hitti hann reglulega í nokkur sumur þegar dóttir mín var að keppa á Símamótinu í Kópavoginum þar sem hann stóð vaktina fyrir félagið sitt. Fótboltinn var sameiginlegt áhugamál okkar Atla. Við hittumst alltaf á vellinum þegar Blikar og KR mættust og hann minnti mig alltaf á það með góðum fyrirvara að nú styttist í leikinn, hvort ég væri ekki klár?

Nú er komið að leikslokum hjá Atla, þau urðu alltof fljótt. Minning lifir um ljúfmenni sem gaf sig alltaf að fullu í verkefnin. Aðstandendum færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnar Ingimundarson.

Það kom sem reiðarslag þegar ég frétti af andláti míns gamla og góða vinar, Atla. Aldrei fréttist af honum annað en að allt væri í góðu lagi enda var hann maður sem leit á björtu hliðarnar og hafði gaman af lífinu.

Við Atli kynntumst fyrir nokkrum árum þegar við hófum nám í Versló og náðum strax mjög góðu sambandi. Hvort það var vegna ættartengsla okkar beggja við Vestmannaeyjar, áhugi á íþróttum eða annað þá var vinskapur okkar alltaf einstaklega góður þó samskiptin á fullorðinsárum hefðu mátt vera reglulegri.

Minningarnar hrannast upp þegar hugsað er til fyrri ára, hvort sem þær tengjast skólaárunum, skemmtanahaldi, útilegum, þjóðhátíðum eða utanlandsferðum með góðum félögum.

Það er ekki langt síðan við hittumst nokkrir skólafélagarnir og áttum góða kvöldstund og ákveðið var að alls ekki mætti líða eins langur tími í næsta hitting. Sá hittingur verður nú heldur öðruvísi en reiknað var með en minningin um góðan félaga verður alltaf með okkur.

Atli var einstaklega tryggur trúnaðarvinur og ég er þakklátur fyrir allar samverustundirnar og símtölin sem við áttum saman.

Ég sendi ættingjum og stórum vinahópi Atla mínar bestu samúðarkveðjur.

Guðjón Þór Victorsson.

Farðu í friði góði vinur

þér fylgir hugsun góð og hlý

sama hvað á okkur dynur

aftur hittumst við á ný.

(Magnús Eiríksson)

Atli Þórsson var vinur minn. Hann var vandaður maður og fór ekki í manngreinarálit. Hann var ekki maður margra orða þó hann hafi sannarlega haft skarpar og skýrar skoðanir á hlutunum og lét ekki sitt eftir liggja í rökræðum um hin ýmsu málefni. Hann var málafylgjumaður og ef hann batt tryggð sína við eitthvert málefni þá máttir þú vita að hann myndi verja þann málstað. Hann var Bliki fram í fingurgóma, var fórnfús og taldi ekki eftir sér að leggja fram vinnustundir til félagsins síns þegar þess var óskað. Breytti þá engu hvort um var að ræða að vinna á gull- og silfurmótinu eða vera í meistaraflokksráði karla eða kvenna. Hann vann jafnt fyrir alla.

Þær eru ófáar veislurnar sem við Atli sóttum bæði og ber tvær þeirra hæst. Annars vegar uppskeruhátíð knattspyrnudeildar Breiðabliks þar sem við Atli stigum „brúðardans“ með miklum stæl. Hitt var partíið sem stóð í sólarhring og Atli var fremstur meðal jafningja þegar vinirnir tóku atriði úr kvikmyndinni The Full Monty. Þetta eru stundir sem eru algjörlega ógleymanlegar þeim sem voru viðstaddir.

Það var aldrei neitt vesen á Atla og það var svo sem alveg dæmigert af honum að kveðja eins og hann gerir nú. Skyndilega og án fyrirvara. Atla Heiðars Þórssonar verður saknað. Minning hans lifir.

Ingibjörg Hinriksdóttir.

Það var ónotaleg tilfinning sem greip okkur þegar Atli mætti ekki til vinnu án þess að boða forföll. Hann var eins og klukka og lét sig aldrei vanta, hvort sem það var í vinnu eða á aðrar samkomur með okkur vinnufélögunum hjá Hafnarfjarðarbæ. Lífið er stundum óvænt og ósanngjarnt að okkur finnst og það á svo sannarlega við um skyndilegt fráfall Atla.

Atli var drengur góður og það var ávallt stutt í hláturinn. Hann ljómaði í hvert sinn sem Breiðablik eða Manchester United unnu leik en aldrei ljómaði hann jafn skært og þegar hann talaði um frænkur sínar og börnin þeirra. Þau áttu hug hans og hjarta og hann sinnti þeim sem væru hans eigin börn og barnabörn. Þeirra missir er mikill.

Atli skilur eftir sig skarð í hugum okkar vinnufélaganna. Minning hans er góð og hún mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Við vinnufélagarnir og vinir hjá Hafnarfjarðarbæ kveðjum Atla með söknuði og vottum Árna, Kittý, Eyrúnu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð. Megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Rósa Steingrímsdóttir.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Lífið er undarlegt. Atli er látinn án nokkurs fyrirvara eða undirbúnings fyrir okkur samferðafólkið. Atli sá um rekstrarmálin fyrir okkur á Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar í hátt í áratug. Hann var lengi starfsmaður skrifstofu Fjölskylduþjónustunnar og setti sinn svip á starfsmannahópinn. Hann var vel að sér í málaflokknum og hægt að treysta á hans sýn, þekkingu og dómgreind þegar kom að margvíslegum álitamálum. Atli var réttsýnn og mikilvægur hlekkur í starfi Fjölskylduþjónustunnar.

Atli var góður félagi, með góða kímnigáfu og hafði unun af því að vera innan um fólk. Hann lét sig aldrei vanta þegar við gerðum okkur glaðan dag á vinnustaðnum og skemmti sér alltaf vel. Atli var einstaklega félagslyndur og var félagi í Kiwanis og Oddfellow, mikill íþróttaáhugamaður, tók þátt í starfi Breiðabliks og hafði skoðanir á stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn var hans flokkur og fór hann ekki leynt með það.

Það sem ekki síst er að minnast í fari Atla er væntumþykja hans og umhyggja gagnvart bróðurdætrunum og börnum þeirra. Ófáar sögurnar sagði Atli af þessum kæru frænkum og börnum þeirra. Hann sýndi myndir af þeim og sagði af þeim skemmtisögur. Hann ljómaði af gleði þegar hann sagði okkur frá ýmsum atburðum í þeirra lífi.

Góður drengur er farinn og er hans sárt saknað. Við þökkum fyrir samfylgdina og sendum samúðarkveðjur til hans nánustu.

F.h. Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar,

Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri.