[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurgeir fæddist í Þórisholti í Mýrdal 7.3. 1938 og ólst þar upp.

Sigurgeir fæddist í Þórisholti í Mýrdal 7.3. 1938 og ólst þar upp. Hann hóf barnaskólanám í Reynisskóla, var í Skógaskóla 1951-54, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1958, embættisprófi í læknisfræði við HÍ 1965 og öðlaðist almennt lækningaleyfi 1967.

Sigurgeir var aðstoðarlæknir hjá héraðslækninum á Blönduósi.1965, kandidat við Landspítala og Landakotsspítala 1965 og 1966, aðstoðarlæknir og í sérfræðinámi í almennum skurðlækningum við The Memorial Hospital í Worcester í Massachusetts í Bandaríkjunum 1966-71, og aðstoðarlæknir í æðaskurðlækningum við Massachusetts General Hospital í Boston 1971-72. Hann öðlaðist sérfræðingsleyfi í almennum skurðlækningum 1972 og í æðaskurðlækningum 1973. Auk þess sótti hann námskeið í greiningu og meðferð á illkynja æxlum við Harvard Medical School í Boston 1975 og í æðaskurðlækningum við Massachusetts General Hospital í Boston 1977.

Sigurgeir var sérfræðingur í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum við Landakotsspítala 1972-95 og yfirlæknir skurðdeildar 1977-81, sérfræðingur í skurðlækningum og æðaskurðlækningum á Borgarspítalanum (síðar Sjúkrahús Reykjavíkur) 1994-2000, og síðar við Landspítala – Háskólasjúkrahús fram á haust 2007.

Sigurgeir var dósent í klínískri handlæknisfræði við læknadeild HÍ 1 977-94.

Sigurgeir sat í stjórn Félags meltingarfræða 1977-78, í stjórn Skurðlæknafélags Íslands 1978-80 og 1991-97 og var formaður 1995-97.

Helstu áhugamál Sigurgeirs hafa verið skíðaferðir og siglingar: „Ég naut þess að fara á skíðum frá því ég var ungur maður og auk þess stundaði ég siglingar um langt árabil. Ég átti skútu, með aðstöðu hjá Snarfara í Elliðavoginum og sigldi mikið um Sundin blá og upp í Hvalfjörð en leigði svo seglbáta í Grikklandi og Tyrklandi. Nú er ég meðeigandi í 28 feta stórri skútu, með fjórum öðrum.

Um áhugamálin er fátt annað að segja nema að ég glamra svolítið á píanó og harmonikku, en það er nú bara fyrir sjálfan mig og mína allra nánustu.“

Sigurgeir ritaði endurminningar sínar, Sigurgeir skara'ann, en sú bráðskemmtilega bók kom út 2015.

Fjölskylda

Sigurgeir kvæntist 7.3. 1959 Höllu Sigurjóns, f. 15.11. 1937, d. 31.3. 2002, tannlækni og sérfræðingi í tannfyllingu, tannsjúkdómafræði og efnafræði. Hún var dóttir Sigurðar Jónssonar, rafvirkjameistara í Reykjavík, og Elínar Þorláksdóttur, ljósmóður í Ölfusi, síðar saumakonu og húsfreyju í Reykjavík.

Börn Sigurgeirs og Höllu eru 1) Aðalsteinn, f. 12.6. 1962, doktor i skógerfðafræði, búsettur í Reykjavík en kona hans er Steinunn Geirsdóttir og eru börn þeirra Hugrún, Borghildur og Geir, og 2) Elín f. 9.2. 1967, tannlæknir og sérfræðingur í tanngervafræði, búsett í Kópavogi en maður hennar var Kristján Hallvarðsson en þau skildu og eru dætur þeirra Halla, Katla og Embla.

Sigurgeir kvæntist 2.12. 2006, Hildi Stefánsdóttur, f. 2.12. 1946, hjúkrunarfræðingi. Þau skildu 2010.

Eiginkona Sigurgeirs frá 4.7. 2017, er Jóhanna G. Halldórsdóttir f. 22.4. 1940, fyrrv. ritari. Hún er dóttir Halldórs Gunnars Pálssonar, löggilts viktarmanns í Reykjavík, og Helgu Jóhannesdóttur smurbrauðsdömu. Dætur Jóhönnu og stjúpdætur Sigurgeirs eru Kristín, Bryndís og Áslaug, dætur Garðars Steindórssonar.

Systkini Sigurgeirs: Borghildur, f. 23.9. 1922, d. 2.8. 2012, húsfreyja í Reykjavík; Einar Sigurður, f. 3.3. 1925, d. 18.12. 1970, vörubílstjóri í Vík; Ingveldur Guðríður, f. 2.8. 1929, d. 9.9. 1999, húsfreyja í Reykjavík; Einar, f. 3.12. 1930, fyrrv. bóndi í Þórisholti, nú á Selfossi; Kristinn, f, 28.11. 1942, loftskeytamaður og kerfisfræðingur í Reykjavík, og Kjartan, f. 1.11. 1944, fyrrv. verslunarstjóri í Reykjavík.

Foreldrar Sigurgeirs voru Kjartan Einarsson, f. 27.8.1893, d. 28.7. 1970, bóndi í Þórisholti, og k.h., Þorgerður Einarsdóttir, f. 28.3. 1901, d. 7.1. 2003, húsfreyja.