Átök Hersveitir undir stjórn Tyrkja hafa setið um Afrin í sex vikur.
Átök Hersveitir undir stjórn Tyrkja hafa setið um Afrin í sex vikur. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólöf Ragnarsdóttir olofr@mbl.is Utanríkisráðuneytið kannar nú hvort orðrómur þess efnis að Íslendingur hafi fallið í átökum í Afrin í Sýrlandi eigi við rök að styðjast.

Ólöf Ragnarsdóttir

olofr@mbl.is

Utanríkisráðuneytið kannar nú hvort orðrómur þess efnis að Íslendingur hafi fallið í átökum í Afrin í Sýrlandi eigi við rök að styðjast. Ráðuneytið hefur sett sig í samband við alþjóðadeild lögreglu og ræðismenn í Tyrklandi vegna málsins. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri í ráðuneytinu, ekki kunnugt um veru mannsins, eða annarra Íslendinga, í Sýrlandi. Tyrkneskir miðlar hafa birt myndir af manninum og segja hann hafa barist með vopnuðum sveitum Kúrda (YPG) í norðvesturhluta Sýrlands og hann hafi látist í árás Tyrkja hinn 24. febrúar.

Meðal þeirra sem greina frá málinu er tyrkneski vefmiðillinn Etha . Þá er einnig greint frá því í tyrknesku útgáfu fréttamiðilsins CNN og í frétt Hurriyet , sem er einn stærsti fréttamiðill Tyrklands. Í frétt á vefsíðu Etha segir að maðurinn hafi komið til Sýrlands í gegnum grísku anarkistasamtökin RUIS og gengið til liðs við samtök að nafni International Freedom Batallion (IFB). Í gær var svo greint frá því á Facebook-síðu International Freedom Batallion að maðurinn hefði reynt að komast til Sýrlands árið 2016 en þá hefði honum verið vísað til baka til Íslands. Hann hefði þó ekki gefist upp heldur snúið aftur og þá til að taka þátt í orrustunni í Raqqa, sem lauk í fyrra, en þar börðust samtökin gegn uppgangi vígamanna Ríkis íslams. Hann hafi svo tekið þátt í því að verja Afrin gegn herjum Tyrkja og fallið í þeim bardögum.