Tómas Ísleifsson
Tómas Ísleifsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Tómas Ísleifsson: "Jarðabók Skúla 1760, vísar í Jarða- og bændatal 1752-67. Þá er sýnt að í jarðabókina er skráður rangur dýrleiki Ytri-Sólheima; ekki eftir bændatalinu."

Fyrir viku skrifaði ég í blaðið um eignarrétt landskipta. Fram komu tengsl heimilda frá átjándu- og nítjándu öld. Ein heimildin er Jarðabók Skúla 1760 , sem vitnar í eldri skjöl um dýrleika jarða.

Í deilum um stærð eignarparta á Ytri-Sólheimum misfór Hæstiréttur með sönnunargögn í málinu nr. 610/2007. Ég vísa til fyrri skrifa í blaðið um málefnið og á vefsíðuna: www.landskuld.is

Heimildir í meira en fjögur hundruð ár bera að jörðin sé 100 H að dýrleika, bændaeignin. Skráður dýrleiki í uppskrift Skúla er 120 H og 20 al.

Í síðustu blaðagrein er fullyrt að Jarðabók Skúla sé uppskrift úr Jarða- og bændatali 1752-1767 . Hér legg ég fram tilvísun í gögn, sem sýna að dýrleiki Ytri-Sólheima í Jarðabók Skúla er ekki samkvæmt fyrirmælum í bókinni sjálfri. Tilvísanir mínar eru í:

Frumritið; Jarða- og bændatal 1752-1767 .

Uppskriftina; Jarðabók Skúla 1760 .

Sönnun um fyrirmælin í Jarðabók Skúla við samanburð á formálum sýslna í handritunum tveimur.

Í formála Bændatalsins fyrir Vestur-Skaftafellssýslu á síðu 59 tilgreinir Þorsteinn Bjarnason, að á næstu síðum séu „Specification“ jarða árið 1753. Á síðu 70 undirritar og innsiglar Þorsteinn skýrsluna. Í Jarðabók Skúla 1760 er á síðu 71 vitnað um að skráning sýslunnar sé samkvæmt „Specification“ jarða sýslunnar í skýrslu Þorsteins frá árinu 1753. Samskonar tilvísanir eru fyrir allar sýslur í riti Skúla. Hér er enginn vafi.

Á vefsíðu minni er flipinn: „Skúli fógeti“. Þar eru klippur úr fyrrtöldum handritum, sem sýna tengslin.

Þá liggur fyrir að sýna að dýrleiki Ytri-Sólheima í uppskriftinni; Jarðabók Skúla , er ekki samkvæmt frumheimildinni; Bændatalinu .

Bændatalið er skráð af Þorsteini Bjarnasyni (um 1725-1760) á Ketilsstöðum í Dyrhólahreppi, en hann var lögsagnari fyrir föður sinn Bjarna Nikulásson (1681-1764) sýslumann á Ytri-Sólheimum. Klippa úr 59. síðu handritsins er á meðfylgjandi mynd. Hluti textans er:

„Jordens Dyrhed

H al

Solheimar ½ Kirke Jord 100

½ Properietarii Jord 100 40 “

Hér er enginn vafi. Bókin er strikuð í dálka og fremsti töludálkur er í síðuhaus skilgreindur: „Jordens Dyrhed, H al.“ Tölurnar „100 40“ ber því að lesa sem 100 H og 40 álnir. Í 1 H eru 120 álnir. Niðurstaðan er: Kirkjueign 100 H, hlutur eignarmanna 100,33 H. Öll eignin þannig reiknuð 200,33 H.

Jarðabók Skúla 1760 var skrifuð í Kaupmannahöfn og bundin í skinn með gylltum áletrunum. Bændatalið með skýrslum sýslumanna er einnig veglega innbundið og hefur Skúli flutt skýrslurnar með sér til Hafnar og heim aftur eftir 1770.

Í Höfn útleggur skrautritari yfir á bók Skúla örlagaríka villu: „1 HH 20 al“. Það skilur sá er hér skrifar, einnig Jón Johnsen í Höfn árið 1847 og aðrir landar fyrr og síðar, sem stórt hundrað eða samtals 120 1/6 H. Ég kann enga skýringu á hvernig skrifarinn afbakar 200 hundruð og 40 álnir og gerir að 120 hundruðum og 20 álnum. Enda er það aukaatriði. Staðreynd er að skráning hans er einfaldlega ekki eftir frumritinu.

Skrifaranum danska skjöplast og skráir ekki samkvæmt frumheimild frá Íslandi; skýrslum sýslumanna. Það er ekki í eina skiptið í veraldarsögunni, sem villa slæðist í uppskrift. Glæsiritið; Jarðabók Skúla, með handbragði heimsborgar kemur til Íslands árið 1928.

Uppskriftin; Jarðabók Skúla 1760 skráir rangt dýrleika Ytri-Sólheima og er því marklaust plagg í eignarrétti Sólheima. Dómur Hæstaréttar var byggður á tveimur heimildum, Jarðabók Skúla 1760 og á rangri tilvísun Johnsens í jarðabók 1804-07 . Hér er lögð fram gild sönnun um aðra villuheimild réttarins.

Sönnun um hina villuheimildina er í réttarskjölunum – dómurinn misfór með sönnunargögn. Hér er lögð fram ný heimild eftir dóm.

Sólheimakirkja og eignarmenn áttu Sólheimajörðina, að hálfu hvor. Á það hafa aldrei verið bornar brigður. Skráning Þorsteins er um tvennt óvænt. Sýslumenn skráðu jarðabækur og er Þorsteinn sá fyrsti til að skrá hlut kirkjunnar. Þorsteinn hefur verið listaskrifari. Talan 40 er torkennileg og með öðru handbragði.

Hún skiptir þó litlu um deilur á Sólheimum síðasta mannsaldurinn. Álnirnar 40 eru 0,33 H að dýrleika eða 0,17% jarðarinnar. Meginmál er að uppskriftin frá 1760 vitnar ekki í frumritið frá 1753.

Samt vil ég skýra tilvist tölunnar. Ódæmi eru að ætla höfuðbóli fornan dýrleika upp á brot. Ég tel að Þorsteinn hafi fyrst skrifað dýrleika eignarmanna 100 H. Síðar hefur hann bætt við álnunum fjörutíu. Það þarf ekki rithandarsérfræðing til að sjá að „40“ er krotað aftan við 100 hundruðin, eftir á. Hvað gekk honum til?

Heimildir um fyrrgreinda feðga bera að þeir hafi þekkt eignarrétt Sólheima. Í Bændatalinu var þeim vandi á höndum. Þeim var gert að brjóta blað í embættisfærslum sýslumanna með því að skrá bæði dýrleika kirkju- og eignarmanna, sem þeir leystu á þann eina veg, sem fær var. Álnirnar fjörutíu voru hins vegar ekki réttmætar.

Lausn gátunnar kemur í næstu tveimur greinum.

Höfundur er líffræðingur. linekra@simnet.is