Um borð í Víkingi AK Kastað vestur af Reykjanesi í lok loðnuvertíðar í fyrravetur, en góður afli fékkst þá á skömmum tíma.
Um borð í Víkingi AK Kastað vestur af Reykjanesi í lok loðnuvertíðar í fyrravetur, en góður afli fékkst þá á skömmum tíma. — Morgunblaðið/Börkur Kjartansson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Kraftur kemst væntanlega í hrognavinnslu upp úr miðri vikunni, en um tvær vikur gætu verið eftir af loðnuvertíð. Í gær voru skipin dreifð um Faxaflóa við leit og veiðar, frá Garðskaga og norður undir Malarrif.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Kraftur kemst væntanlega í hrognavinnslu upp úr miðri vikunni, en um tvær vikur gætu verið eftir af loðnuvertíð. Í gær voru skipin dreifð um Faxaflóa við leit og veiðar, frá Garðskaga og norður undir Malarrif. Á mánudag var yfirleitt lítið að sjá og „kaldaskítur“ á miðunum, en bæði í gær og í fyrradag náðu einhverjir þokkalegum köstum. Loðnu hefur verið víða að sjá, en hún virðist ekki hafa þétt sig í flekki eða stórar torfur eins og hún gerði í fyrravetur.

Hrognavinnsla byrjaði hjá HB Granda fyrir helgi og voru unnin svokölluð iðnaðarhrogn. Hrognavinnsla er einnig hafin í Vestmannaeyjum og hjá Síldarvinnslunni og Eskju er beðið eftir að fyrstu skipin komi með farma til vinnslu hrogna.

Enn óvissa um verð

Loðnan er unnin í marga afurðaflokka og auk lýsis og mjöls er hún fryst fyrir ólíka markaði í Austur-Evrópu og Asíu eftir stærð loðnunnar, hrognafyllingu og þroska hrogna. Síðustu daga vertíðar er hrognavinnsla til manneldis síðan alls ráðandi, en hrognin eru verðmætasta afurð loðnunnar.

Nokkur óvissa er um verð fyrir hrognin og einhverjar birgðir eru í landinu síðan í fyrra. Oft er ekki samið um endanlegt verð fyrr en að lokinni vertíð þegar fyrir liggur hver framleiðslan er. Útgerðarmaður sem rætt var við í gær sagði að ekki væri ólíklegt að seljendur og kaupendur myndu hittast og ræða málin á sjávarútvegssýningunni í Brussel 24.-26. apríl.

Eftir aukningu í byrjun febrúar var heildaraflamark á loðnu við Ísland í vetur ákveðið 285 þúsund tonn. Af þeim kvóta koma alls 185.575 tonn í hlut Íslendinga. Samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu er búið að landa 113 þúsund tonnum, en eitthvað kann að vanta inn í þær tölur.

Sérstök vertíð í fyrra

Í fyrra komu 196 þúsund tonn í hlut íslenskra veiðiskipa og náðist sá afli allur. Útflutningsverðmæti var þá áætlað um 17 milljarðar króna. Vertíðin í fyrra var að mörgu leyti sérstök, því skipin héldu ekki til veiða fyrr en að loknu sjómannaverkfalli 20. febrúar. Kvóti íslenskra skipa var síðan aukinn 14. febrúar úr rúmum 12 þúsund tonnum í rúmlega 196 þúsund tonn. Gott veður, þéttar göngur og öflug skip gerðu það að verkum að kvótinn náðist þó svo að skammur tími væri til stefnu.