[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Merete Pryds Helle Magnea J. Matthíasdóttir þýddi. Mál og menning, 2018. Kilja. 413 bls.

Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi varð eitt sinn að orði að fátækt væri vond og ljót og gerði fólk óhamingjusamt.

Það má með sanni yfirfæra á tilveruna á dönsku eyjunni Langeland um miðja 20. öld í nýrri skáldsögu Merete Pryds Helle, þar sem barnmargar fátækar fjölskyldur sem eyjuna byggja eru þungamiðja söguþráðar.

Stúlkan Marie er þar í lykilhlutverki. Við fylgjum henni frá því hún er nokkurra ára gömul og til fullorðinsára og flutt til Kaupmannahafnar.

Rithöfundurinn hefur sagt frá því að söguna byggi hún meðal annars á sögu eigin fjölskyldu, einkum móðurfjölskyldu, og þótt svo hefði ekki verið, þá eru í sögu sem þessari mörg sannleiksbrot og margt í tilverunni sem má yfirfæra á erfiði fjölskyldna og kvenna hér á landi fyrr á öldum og fyrri hluta síðustu aldar.

Marie elst upp á barnmörgu heimili þar sem harðneskjan étur uppi blíðuna, ef ekki strax þá á einhvern hátt á endanum. Hýðingar á sunnudögum eru formlegt fyrirkomulag en eru þó í öll mál þótt sérstaklega séu þær teknar fyrir á hvíldardaginn. Og börnin læra það sem fyrir þeim er haft, systkinin berja og níðast hvert á öðru, síðar í lífinu á öðrum. Marie reynir á sinn hátt að flýja fortíðina, flytur til Kaupmannahafnar, giftist, eignast eigin börn. En fortíðin hefur ekki lokið sér af með hana.

Lesandinn fær ekki aðeins innsýn í líf barna þessa tíma heldur einnig ýmiss konar félagslegar aðstæður, svo sem hvernig það var að missa heilsuna, hvernig það var að fæðast fatlaður, sorgina sem fylgdi því að eignast barn utan hjónabands og þurfa að gefa það, eiga of mörg börn eða geta ekki eignast börn.

Hversu fjölbreytt fjölskyldumynstur og líf sem Helle dregur fram í bók sinni er þó eitt sem á við um það allt; líf kvenna var snautt af munaði. En það er heldur engin tilvera án fegurðar og Helle nær að kútvelta sögunni niður aurugar en grösugar brekkur í senn, það sem ljær lífinu fegurð verður eitthvað svo ógnarfagurt í þessu umhverfi enda fjallar heimspeki bókarinnar mikið um fegurð og þá fegurð alþýðunnar, samanber upprunalegan titil bókarinnar; Folkets skønhed .

Það sem að baki býr er einhvers konar yfirfull ættarkista af atburðum, djúpum sorgum og stundargleði, sem manni finnst blaðsíðurnar 400 stundum hreinlega ekki duga undir eða ná að beisla.

Sumir lesendur hafa lýst því þannig að þeir hafi ekki getað lagt frá sér bókina, svo helteknir voru þeir af sögunni, en undirrituð upplifði þetta þveröfugt. Lesturinn var stundum svo átakanlegur að það var einmitt reglulega þörf á pásu, en það leið ekki á löngu uns gripið var í bókina á nýjan leik.

Merete Pryds Helle dettur ekki ofan í þá gildru að nota tungumálið til að hlaða ofan á dramatíkina. Þess í stað sýnir hún góða færni í að láta söguþráðinn líða um stokka og steina og líkt og sögupersónurnar, sem þurfa að geta séð atburði lífs síns á mildari hátt til að tóra, eltir hún það sjónarhorn.

Magnea J. Matthíasdóttir kemur þessum raddblæ höfundar vel til skila í þýðingu sinni, þessari hversdagslegu fegurð á grófum fleti en Magnea heldur framúrskarandi vel utan um texta sögunnar, með greinilega djúpri tilfinningu fyrir yfirbragði hans.

Júlía Margrét Alexandersdóttir