Formaður UAK Sigyn Jónsdóttir er hugbúnaðar- og rekstrarverkfræðinur, en ráðstefnan mun meðal annars fjalla um tækni og stöðu kvenna gagnvart námi og atvinnutækifærum í framtíðinni vegna fjórðu iðnbyltingarinnar.
Formaður UAK Sigyn Jónsdóttir er hugbúnaðar- og rekstrarverkfræðinur, en ráðstefnan mun meðal annars fjalla um tækni og stöðu kvenna gagnvart námi og atvinnutækifærum í framtíðinni vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is „Þetta er félag sem vill stuðla að jafnrétti, jafnvægi og framþróun.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

„Þetta er félag sem vill stuðla að jafnrétti, jafnvægi og framþróun. Það eru um 300 konur skráðar í félagið og við hittumst á viðburðum einu sinni til tvisvar í mánuði, höldum námskeið, förum í fyrirtækjaheimsóknir og byggjum tengslanet okkar á milli og inn í atvinnulífið,“ segir Sigyn Jónsdóttir, hugbúnaðar- og rekstrarverkfræðingur og formaður Ungra athafnakvenna (UAK). Félagið verður með UAK-daginn, ráðstefnu tileinkaða ungum konum í atvinnulífinu sem verður haldin í fyrsta skipti um helgina í Norðurljósum Hörpu.

Ráðstefnan ber yfirskriftina „Höfum áhrif í breyttum heimi“ og verða tekin fyrir málefni á borð við fjórðu iðnbyltinguna og áhrifamiklar konur í fjölmiðlum. Meðal gesta verða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Halla Tómasdóttir, Alda Karen Hjaltalín, frumkvöðullinn Laura Kornhauser, Paula Gould og Eliza Reid forsetafrú. Fundarstjóri er Edda Hermannsdóttir.

Fyrir ungar konur á öllum aldri

Sigyn segir að félagið sé í raun opið öllum konum sem finnist þær vera ungar og yngsti meðlimurinn sé aðeins 19 ára en sú elsta um fertugt.

„Við höfum t.d. verið með námskeið um að semja um laun, streitustjórnun og núvitund. Með ári hverju erum við að efla vitund ungra kvenna um félagið og þegar við komum inn í fyrirtæki og hittum stjórnendur og leiðtoga þá finnum við að fólk veit af okkur. Ég tel að það hafi jákvæð áhrif inn á vinnumarkaðinn að það sé til félag ungra kvenna sem ætla sér að sækja tækifærin og láta vita af sér. Þegar við heimsækjum fyrirtæki og stofnanir eða erum með panelumræður þá reynum við að skora á stjórnendur og stjórnmálamenn að taka mark á kröfum um jöfn tækifæri kynjanna. Á ráðstefnunni um helgina verður fjallað um fjórðu iðnbyltinguna, sem er heitt umræðuefni þessa dagana, og tekin fyrir gervigreind, vélmenni og gríðarmikill vöxtur og framfarir í tækni. Þá verður á dagskrá staða kvenna innan þessarar nýju iðnbyltingar, en í námsgreinum og störfum í tæknigeiranum eru langmest karlar, og rætt hvað það geti þýtt fyrir konur í framtíðinni.“