Húsnæði Íbúðalán á mann námu í lok árs 2016 sextíu þúsund evrum.
Húsnæði Íbúðalán á mann námu í lok árs 2016 sextíu þúsund evrum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Íbúðaskuldir á mann jukust minna að meðaltali hérlendis á milli áranna 2005 og 2016 en í hinum norrænu löndunum í evrum talið. Þetta kemur fram í nýútkominni mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn.

Íbúðaskuldir á mann jukust minna að meðaltali hérlendis á milli áranna 2005 og 2016 en í hinum norrænu löndunum í evrum talið. Þetta kemur fram í nýútkominni mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn.

Í skýrslunni segir einnig að stöðug raunaukning hafi orðið í heildarstöðu útistandandi íbúðalána hérlendis frá því í lok árs 2015, eftir nokkuð samfleytt tímabil raunlækkunar frá árinu 2011.

Þá segir að íbúðaskuldir á mann hafi verið hæstar hérlendis í lok ársins 2005 eða rúmar 58 þúsund evrur, samanborið við 35 þúsund evrur að meðaltali á hinum löndunum á Norðurlöndum og tæpar 11 þúsund evrur í löndum Evrópusambandsins. „Frá þeim tíma hafa íbúðalán á mann farið upp fyrir Ísland í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og við lok árs 2016 námu þær skuldir um 60 þúsund evrum á mann hérlendis á móti um 72 þúsund að meðaltali í þessum ríkjum.“

Í skýrslunni kemur einnig fram að hlutfall vísitölu íbúðaverðs gagnvart vísitölu neysluverðs, sem líta megi á sem raunverð fasteigna, hafi aldrei verið hærra en í janúar. „Þetta hlutfall var þá um 3% hærra en það var þegar það var hæst í aðdraganda fjármálakreppunnar í október 2007. Íbúðaverð hefur nú hækkað um 61% umfram vísitölu neysluverðs síðan í desember 2010, þegar hlutfall þessara tveggja vísitalna var lægst í kreppunni. tobj@mbl.is