Vantraust Ráðherrar voru missáttir við atkvæðaskýringar þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu.
Vantraust Ráðherrar voru missáttir við atkvæðaskýringar þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu. — Morgunblaðið/Hari
Helgi Bjarnason Anna Sigríður Einarsdóttir Sólrún Lilja Ragnarsdóttir „Ég er bara ánægð með að hafa það staðfest að ég njóti trausts þingsins og þakklát fyrir að það hafi komið fram,“ sagði Sigríður Á.

Helgi Bjarnason

Anna Sigríður Einarsdóttir

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

„Ég er bara ánægð með að hafa það staðfest að ég njóti trausts þingsins og þakklát fyrir að það hafi komið fram,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra eftir að þingið hafði fellt vantrauststillögu Samfylkingarinnar og Pírata. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að málinu væri ekki lokið.

Tillaga Samfylkingarinnar og Pírata til þingsályktunar um vantraust á dómsmálaráðherra var felld við atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær. 29 þingmenn stjórnarandstöðunnar ásamt tveimur þingmönnum VG greiddu atkvæði með vantrausti en Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sat hjá. Allir þingmenn stjórnarliðsins nema Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn VG, greiddu atkvæði á móti.

Ekki tilefni til stóryrða

Birgir Ármannsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, sagði við umræður um vantraustið mikilvægt að hafa í huga að ágreiningurinn sem á endanum stóð upp úr í hæstaréttarmálinu snerist um það hversu vel rannsókn hefði farið fram. Ekki um aðra þætti. „Þarna var um að ræða ágreining um mat á því hvernig matskennd regla hefði verið framkvæmd. Það er nú stórmálið sem hér er til umræðu og gefur ekki tilefni til þeirra stóryrða um vantraust á réttarkerfinu og hrun lýðræðis á Íslandi og ég veit ekki hvað menn hafa sagt hérna,“ sagði Birgir.

Sigríður Á. Andersen kvaðst í gærkvöldi vonast til að umræðu um málið væri nú lokið og að vinnufriður skapaðist í þinginu. „Ég vona að þessu þvargi um þetta mál sé nú lokið. Ég vona að menn fái nú einhvern vinnufrið.“

Hún sagðist eftir sem áður reiðubúin í gott samstarf við alla þingmenn. Hún hefði, bæði í þessu máli sem öðrum, átt frumkvæði að gegnsæju samtali við þingmenn, eins og þeir hefðu óskað eftir. „Ég mun halda því áfram. Ég vona að það verði gagnkvæmt. Mönnum ber skylda til þess að vinna hér að góðum málum,“ sagði Sigríður.

Vandræðagangur áfram

„Að sjálfsögðu eru þetta vonbrigði vegna þess að við töldum þetta nauðsynlegt skref til að endurreisa traust á dómsmálum í landinu,“ sagði Logi Einarsson í gærkvöldi og lýsti þeirri skoðun sinni að málinu væri ekki lokið.

Spurður um framhaldið sagði Logi þingmennina virða lýðræðislega niðurstöðu. „Auðvitað getur þó verið að vandræðagangur dómstigsins sé ekki úr sögunni,“ sagði hann og bætti því við að mikil óvissa væri um niðurstöðu málaferla um hæfi dómara við Landsrétt.