Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Þingmenn úr röðum repúblikana í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt áform Donalds Trumps forseta um að leggja verndartolla á innflutt stál og ál.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Þingmenn úr röðum repúblikana í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt áform Donalds Trumps forseta um að leggja verndartolla á innflutt stál og ál. Þeir óttast að verndartollarnir leiði til tollastríðs sem skaði fyrirtæki og neytendur í Bandaríkjunum.

Á meðal þeirra sem hafa deilt á verndartollastefnu Trumps er Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. „Við höfum mjög miklar áhyggjur af afleiðingum viðskiptastríðs og hvetjum forsetann til að láta ekki verða af þessum áformum,“ sagði talsmaður Ryans. Hann skírskotaði til yfirlýsingar Trumps í vikunni sem leið um að hann hygðist leggja 25% verndartoll á innflutt stál og 10% á innflutt ál.

Öldungadeildarþingmaðurinn Orrin Hatch, repúblikani frá Utah, sagði að verndartollarnir myndu koma niður á bandarískum neytendum, hægja á hagvexti og grafa undan ávinningnum af nýlegum skattalækkunum repúblikana. „Klikkuð verndartollastefna frá átjándu öld verður til þess að bandarískar fjölskyldur þurfa að greiða hærra verð fyrir vörurnar,“ sagði annar repúblikani, Ben Sasse, öldungadeildarþingmaður frá Nebraska. The Wall Street Journal kveðst hafa heimildir fyrir því að þingmenn repúblikana útiloki ekki þann möguleika að breyta lögum til að hindra verndartollana.

Embættismenn í Hvíta húsinu hafa ítrekað sagt að ekkert land verði undanþegið verndartollunum. Trump tísti þó á Twitter að Kanada og Mexíkó kynnu að fá undanþágu frá tollunum ef löndin féllust á kröfur Bandaríkjastjórnar um breytingar á NAFTA, fríverslunarsamningi Norður-Ameríkuríkja.

Hótar tollum á evrópska bíla

Stjórnvöld í Kanada og Mexíkó hafa sagt að ekki komi til greina að fallast á tilslakanir í viðræðunum um breytingar á NAFTA gegn því að löndin verði undanþegin verndartollunum. Fyrstu viðbrögð þeirra við áformum Trumps benda til þess að þau torveldi samkomulag um NAFTA, að sögn The Wall Street Journal . Blaðið hefur eftir sérfræðingum í milliríkjaviðskiptum að hótanir Trumps geti torveldað fyrirhugaða viðskiptasamninga Bandaríkjanna við önnur ríki og orðið til þess að erfitt verði fyrir viðsemjendurna að fallast á tilslakanir.

Embættismenn Evrópusambandsins hafa sagt að ef Trump leggur verndartolla á stál- og álinnflutninginn ætli það að svara með 25% tollum á innflutning á ákveðnum varningi frá Bandaríkjunum, m.a. Harley Davidson-vélhjólum, viskíi og gallabuxum. Innflutningurinn á varningnum nemur alls 3,5 milljörðum dollara á ári. Trump hefur sagt að ef ESB geri þetta ætli hann að leggja tolla á innflutning á bílum frá aðildarríkjum sambandsins. Bandaríkin eru stærsti markaðurinn fyrir bíla frá ESB-löndum, þangað fara um 25% af öllum bílaútflutningi þeirra.

Hagfræðingar hafa varað við því að verndartollar á innflutt stál og ál geti aukið kostnað bandarískra verksmiðja sem nota málmana til að framleiða bíla, vélar og annan varning. Starfsmenn þessara fyrirtækja eru alls 6,5 milljónir, en aðeins 140.000 manns starfa í stálverksmiðjunum sem Trump leggur áherslu á að vernda.

Skaða bandamenn
» Leggi Trump verndartolla á innflutt stál og ál koma þeir niður á mörgum löndum sem hafa verið á meðal helstu samstarfslanda Bandaríkjanna.
» Aðeins um 2% af öllum stálinnflutningi Bandaríkjanna koma frá Kína.
» Trump hefur sagt að verndartollar á innflutt stál verði til þess að störfum í bandarískum stálverksmiðjum fjölgi mjög en sérfræðingar draga það í efa.
» Störfum í bandarískum stálverksmiðjum fækkaði um þrjá fjórðu á árunum 1962 til 2005, aðallega vegna tækniframfara sem urðu til þess að framleiðnin á hvern starfsmann fimmfaldaðist – ekki vegna frjálsra viðskipta.