— Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Jónas Jóhannsson hæstaréttarlögmaður hefur ritað Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra bréf vegna skipunar dómara í Héraðsdóm Reykjavíkur 19. febrúar.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Jónas Jóhannsson hæstaréttarlögmaður hefur ritað Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra bréf vegna skipunar dómara í Héraðsdóm Reykjavíkur 19. febrúar. Jónas var í hópi 31 umsækjanda um embættið en Arnaldur Hjartarson var valinn.

Jónasi barst eins og öðrum umsækjendum bréf frá ráðherra þar sem tilkynnt var um valið. Var viðtakendum boðið að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun ráðherra. Ákvað Jónas að gera það með vísan til 21. greinar stjórnsýslulaga. Segir í þeirri grein að „aðili máls getur krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt“. Skal bera fram beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skal stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því hún barst. Jónas óskaði eftir rökstuðningi 28. febrúar og hefur ráðherra samkvæmt því frest til 14. mars.

Mun ráðast af næstu skrefum

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, er að afla gagna vegna starfa dómnefndar um umsækjendur um stöðu dómara. Hann mun síðan ákveða farveg málsins. Mun Jónas vera að baki umræddri kvörtun.

Spurður um næstu skref, ef umboðsmaður telur tilefni til að rannsaka málið frekar, segir Jónas framhaldið í höndum lögmanns síns.

„Ég er með lögmann í málinu, Helga Birgisson hæstaréttarlögmann. Ég treysti honum til að taka ákvörðun um framhaldið. Það er hans að meta þetta sjálfstætt.“ Spurður hvort til greina komi að fara með málið fyrir dómstóla kveðst Jónas ekki útiloka það. „Ég hef hins vegar engan áhuga á málaferlum við ráðherra. En ég útiloka það ekki.“

Stigagjöfin sett til hliðar

Athygli hefur vakið að við skipun dómara í Landsrétt notaði dómnefnd stigagjöf út frá 12 matsþáttum. Við valið á dómara í Héraðsdóm Reykjavíkur var slík stigagjöf hins vegar ekki notuð heldur var valið rökstutt með almennum orðum.

Dómnefndina vegna Héraðsdóms Reykjavíkur skipuðu þau Jakob R. Möller, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Kristín Benediktsdóttir, Ragnheiður Harðardóttir og Ragnhildur Helgadóttir. Fram kom í nýju umsögninni að formannsskipti urðu við valið. Gunnlaugur Claessen, formaður nefndarinnar, og Greta Baldursdóttir, varamaður hans, hefðu bæði vikið sæti við meðferð málsins „fyrst og fremst vegna tímabundinna anna“.

Til upprifjunar lét Jakob R. Möller þau orð falla á fundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík 24. janúar sl. að stigagjöfin væri varhugaverð. „Hættan í sambandi við boxamerkingarnar“ væri t.d. sú að sá sem hefði unnið í 10 ár væri „fimm sinnum betri en sá sem hefur unnið í 2 ár“. „Þetta er hætta sem ber mjög víða á þar sem mannauðsfræðingarnir hafa ráðið ríkjum,“ sagði Jakob þá m.a.

Jakob sagði við Morgunblaðið í gær að dómnefndin hefði frest til 28. mars til þess að svara umboðsmanni.

Mismunandi nálgun dómnefnda

Benda þessi sjónarmið setts nefndarformanns til að munur hafi verið á nálgun dómnefnda vegna Landsréttar annars vegar og Héraðsdóms Reykjavíkur hins vegar. Fram hefur komið að tveir umsækjendur um Landsrétt fengu dæmdar bætur eftir að þeir höfðuðu mál gegn ráðherra fyrir að víkja frá tilnefningum dómnefndar. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu.

Ákveðið fyrirfram

Jónas sótti líka um Landsrétt.

Spurður um mismunandi nálgun dómnefnda segir Jónas margt benda til að nefndin undir forystu Jakobs R. Möller hafi ákveðið að tilnefna Arnald sem dómara. Rökstuðningur hafi svo fylgt í kjölfarið. Efnislegur samanburður á umsækjendum hafi ekki farið fram. „Vinnubrögð nefndarinnar gætu bent til þess að hún taki ákvörðun um hvern skipa skuli og reyni svo að rökstyðja það eftir á,“ segir Jónas um dómnefndina.

Morgunblaðið hefur afrit af bréfi hans til ráðherra vegna skipunar dómara í Héraðsdóm Reykjavíkur:

„Ég vek sérstaka athygli á því að ég var meðal umsækjenda um embætti 15 dómara við Landsrétt, sem þér skipuðuð í 2017, en eins og meðfylgjandi listi frá dómnefnd um hæfni umsækjenda til að sitja í Landsrétti ber með sér...raðaðist ég í 20. sæti af 33 umsækjendum og var m.a. metinn hæfari en sex gamalreyndir héraðsdómarar; Sandra Baldvinsdóttir, Ólafur Ólafsson, Bogi Hjálmtýsson, Hildur Briem, Ragnheiður Bragadóttir og Jón Finnbjörnsson. Ragnheiður raðaðist í 23. sæti og Jón vermdi 30. sætið.“

Lagði áherslu á dómarareynslu

Jónas rifjar upp orð ráðherra.

„Mér líður ekki úr minni þegar þér lýstuð því ítrekað yfir á opinberum vettvangi, áður en skipað var í embættin, að þér mætuð það svo, sem sérfræðingur, að efstu 23-24 umsækjendurnir væru allir jafn hæfir til að hreppa embætti landsréttardómara og að þess utan legðuð þér áherslu á langa dómarareynslu umsækjenda. Með þessum röksemdum skipuðuð þér Ragnheiði Bragadóttur og Jón Finnbjörnsson í embætti landsréttardómara,“ skrifar Jónas.

Má hér rifja upp að dómsmálaráðherra lýsti því í bréfi til forseta Alþingis 29. maí 2017 að hann teldi dómnefnd ekki hafa gefið reynslu af dómarastörfum nóg vægi við tilnefningar á landsréttardómurum.

Jónas ber í bréfi sínu til ráðherra saman eigin reynslu og reynslu þess sem dómnefnd tilnefndi í Héraðsdóm Reykjavíkur og ráðherra skipaði 19. febrúar síðastliðinn.

Mikill munur á reynslunni

„Þess er vænst að í rökstuðningi yðar verði skilmerkilega greint frá því hvernig þér teljið lög geta staðið til þess að ég sé að áliti dómnefndar metinn hæfari til að gegna embætti landsréttardómara en ofangreindir tveir dómarar sem þér skipuðuð í Landsrétt, en teljist þrátt fyrir þetta ekki hæfastur til að öðlast héraðsdómaraembættið sem þér skipuðuð Arnald Hjartarson í. Með fyllstu virðingu fyrir Arnaldi er m.a. sá veigamikli munur á starfsferli okkar og reynslu að ég var áður héraðsdómari í 17 ár og hef ríflega 6 ára lögmannsreynslu á meðan Arnaldur hafði verið settur héraðsdómari í 3 mánuði og var með innan við árs reynslu af lögmannsstörfum. Ég árétta í þessu sambandi fyrri skírskotun mína til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga,“ skrifar Jónas til ráðherrans.

Segir í þeirri grein að „í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á“. „Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.“