Inga Sæland: "Eins og við vitum fóru fjárlög fyrir árið 2018 á ljóshraða í gegnum þingið í desember sl. Þar var í engu gert ráð fyrir því að bæta hag öryrkja eða þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu."

Eins og við vitum fóru fjárlög fyrir árið 2018 á ljóshraða í gegnum þingið í desember sl. Þar var í engu gert ráð fyrir því að bæta hag öryrkja eða þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Þá er ég að tala um að bæta hag þeirra beint, ekki óbeint, ekki í formi þess að veita þeim afslátt hér og þar, eða aðgengi að einu eða öðru. Ég er að tala um framfærslu, um möguleika á því að ná endum saman. Ég er að tala um fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.

Hvar er málstaðurinn?

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, var í stjórnarandstöðu í fyrrahaust. Ég má til með að vísa beint í orð hennar við stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar frá því 13. september 2017. Ég á svo erfitt með að átta mig á því hvernig hægt er að snúast svona gjörsamlega upp í andhverfu sína. Katrín sagði þá m.a.:

„Kæru landsmenn, ranglæti hvar sem það finnst í samfélaginu er ógn við réttlætið. Þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Að bíða með réttlæti jafngildir því að neita fólki um réttlætið, eins og Marteinn Luther King sagði í frægu bréfi. Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti.“

Ég fylltist af bjartsýni þegar ég hlustaði á Katrínu. Ég vildi trúa því sem hún var að segja. Og enn frekar gladdist ég við næstu orð hennar:

„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti, en núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör.“

Það er í raun með hreinum ólíkindum hve stuttur tími er liðinn frá því að þessi orð voru töluð að því er virtist í fullri einlægni. Nú er Katrín Jakobsdóttir orðin forsætisráðherra og komin með völd til að leiðrétta lægstu launin. Með völd til að binda enda á að fátækt fólk þurfi að bíða eftir réttlæti. Hún getur veitt þeim það réttlæti sem hún áður talaði fyrir. Staðreyndirnar tala þó sínu máli, hún ætlar ekki að útrýma fátækt. Þúsundir Íslendinga eiga um sárt að binda.

Tilvitnun í Katrínu:

„Fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20 þús. krónur því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig.“

Þegar fátækt fólk er beðið um að bíða eftir réttlæti þá er í reynd verið að neita því um það. Það er einmitt það sem Katrín Jakobsdóttir og ríkisstjórn hennar gerir nú.

Höfundur er þingmaður og formaður Flokks fólksins.