Karlmaður var í gær í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald, eða til 20. mars, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Karlmaður var í gær í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald, eða til 20. mars, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn var handtekinn í síðustu viku vegna rannsóknar lögreglu á innbrotum í umdæminu. Annar maður, sem var handtekinn af sama tilefni, hefur verið úrskurðaður til að sæta vistun í úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda til 20. mars, en hann er 17 ára. Samtals voru fjórir karlmenn handteknir grunaðir um innbrot í síðustu viku, tveir í Hafnarfirði og tveir í Garðabæ. Mennirnir sem teknir voru í Garðabæ eru erlendir ríkisborgarar sem eru ekki með íslenska kennitölu og talið er að þeir hafi komið hingað gagngert til að stunda innbrot. Annar þeirra sem tekinn var í Hafnarfirði er Íslendingur en hinn erlendur ríkisborgari.