Sverrir Óskarsson, sviðstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun segir að ekki eigi að líta á samræmdu könnunarprófin sem gagn til inntöku í framhaldsskóla.

Sverrir Óskarsson, sviðstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun segir að ekki eigi að líta á samræmdu könnunarprófin sem gagn til inntöku í framhaldsskóla. Prófin séu ætluð fyrir nemendur, foreldra og skóla til að fá endurgjöf á styrk- og veikleika nemandans. Nemendur í 9. bekk þreyta samræmdu prófin í ár og munu rúmlega 4.300 nemendur í 141 grunnskóla taka samræmt próf í íslensku í dag. Sverrir segir að hluti af tilganginum með því að láta börn í 9. bekk þreyta prófin sé að draga úr því að þau séu notuð sem gagn inn í framhaldsskóla. „Það verða heilmiklar breytingar á þessu eina ári og krökkum standa margar leiðir til boða og það er mjög mikilvægt að hanga ekki í því að láta eitt svona próf ákveða hlutina,“ segir Sverrir. Nemendur hafa val um hvort þeir láta niðurstöður prófanna fylgja með umsókn í framhaldsskóla að ári liðnu. Segir Sverrir sína persónulegu skoðun vera að prófin eigi alls ekki að vera efniviður fyrir framhaldsskólana enda sé prófið að meta afmarkaða þætti.

Morgunblaðið ræddi við þau Regínu Sjöfn Sveinsdóttur og Ísak Leon Júlíusson, nemendur í 9. bekk í Vatnsendaskóla, sem hafa undirbúið sig mikið fyrir samræmdu prófin á síðustu vikum. Þau segja að nemendur séu mjög meðvitaðir um að nota megi niðurstöður prófanna til inngöngu í framhaldsskóla. mhj@mbl.is 6