Þungbrýnn Arsene Wenger hefur ekki haft yfir miklu að kætast.
Þungbrýnn Arsene Wenger hefur ekki haft yfir miklu að kætast. — AFP
Franski knattspyrnustjórinn Arsene Wenger ætlar ekki að segja starfi sínu lausu hjá Arsenal, þrátt fyrir afleitt gengi liðsins undanfarið, en frá þessu greinir breski fjölmiðillinn The Times.

Franski knattspyrnustjórinn Arsene Wenger ætlar ekki að segja starfi sínu lausu hjá Arsenal, þrátt fyrir afleitt gengi liðsins undanfarið, en frá þessu greinir breski fjölmiðillinn The Times.

Arsenal hefur tapað átta af fjórtán leikjum sínum á þessu ári og hefur liðinu aldrei gengið jafn illa þau tæpu 22 ár sem Wenger hefur verið við stjórnvölinn. Arsenal tapaði 2:1 fyrir Brighton um síðastliðna helgi og eftir leikinn sagðist Wenger ekki hafa lent í álíka taphrinu á öllum sínum ferli. Hann teldi sig hinsvegar hafa nægilegan drifkraft til að snúa gengi liðsins við.

Boðið að segja af sér?

Þolinmæði stuðningsmanna Arsenal virðist vera á þrotum og hefur orðrómur verið á kreiki um það að Wenger verði boðið að segja af sér í sumar, svo að brottför hans verði sem virðulegust.

Wenger á nú að hafa tilkynnt þjálfarateymi sínu að hann ætli sér ekki annað en að standa við samning sinn hjá félaginu, sem rennur út sumarið 2019, en hvort forráðamenn Arsenal leyfi það er annað mál.

Annað kvöld mætir Arsenal liði AC Milan í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Sigur í þeirri keppni gefur sæti í Meistaradeildinni næsta haust og virðist það vera eina von Lundúnaliðsins til að bjarga afleitu tímabili. kristoferk@mbl.is