Í skólanum Frá vinstri: Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Spánverjinn Jose Saavedra, Hafrún Kristjánsdóttir, Sveinn Þorgeirsson, Ásrún Matthíasdóttir, Kristján Halldórsson. Á myndina vantar Inga Þór Einarsson.
Í skólanum Frá vinstri: Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Spánverjinn Jose Saavedra, Hafrún Kristjánsdóttir, Sveinn Þorgeirsson, Ásrún Matthíasdóttir, Kristján Halldórsson. Á myndina vantar Inga Þór Einarsson. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Afreksstarf Kristján Jónsson kris@mbl.is Íþróttafræðisviðið við Háskólann í Reykjavík á í umfangsmiklu samstarfi við ýmsa aðila í íþróttahreyfingunni þegar kemur að þjálfun afreksmanna.

Afreksstarf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íþróttafræðisviðið við Háskólann í Reykjavík á í umfangsmiklu samstarfi við ýmsa aðila í íþróttahreyfingunni þegar kemur að þjálfun afreksmanna. Nemendur og kennarar í HR sjá um ýmiss konar mælingar á afreksfólki bæði fyrir sérsambönd innan ÍSÍ og einnig fyrir aðila eins og Mjölni. Um er að ræða íþróttafólk úr ólíkum íþróttagreinum eins boltagreinum, golfi, bardagaíþróttum og hestamennsku auk íþróttafólks hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Morgunblaðið settist niður með þeim Hafrúnu Kristjánsdóttur, Margréti Lilju Guðmundsdóttur, Inga Þór Einarssyni og Sveini Þorgeirssyni og fékk innsýn í það sem er að gerast.

„Á bak við þetta var sú hugsun að hægt væri að nálgast afreksíþróttir á faglegan hátt. Hjá HR er auðvelt að koma hugmyndum á framfæri og auðvelt að taka ákvarðanir. Þetta átti sér í raun og veru stað á litlum sviðsfundi hjá okkur þar sem við tókum eitt skref og skrefin bættust við eitt af öðru,“ sagði Margrét. Ingi tekur undir þetta og bendir á að ekki sé sjálfgefið að ákvarðanatakan sé auðveld í háskólaumhverfi.

KSÍ reið á vaðið

Mælingarnar á afreksfólkinu, sem nú er orðnar umfangsmiklar, hófust fremur sakleysislega. Í þeim skilningi að ekki var hægt að sjá fyrir að umsvifin yrðu jafn mikil og nú er raunin þar sem HR mælir landsliðsfólk í sjö greinum. Upphafið var samstarf við kvennalandsliðið í knattspyrnu og fljótlega fylgdu handboltalandsliðin í kjölfarið.

„Við búum til mælingapakka fyrir hvert sérsamband sem gert er í samvinnu við landsliðsþjálfarana og styrktarþjálfarana. Í framhaldinu leggjum við eitthvað til málanna út frá fræðunum og þá verður til mælingahandbók sem við keyrum á,“ útskýrði Hafrún og Sveinn segir það hafa verið skemmtilegt að búa til slíkan pakka. „Það var mjög skemmtileg vinna. Við myndum í raun vilja mæla allan fjandann og nota marga daga í það en tíminn sem við höfum er takmarkaður. Þjálfararnir hafa einnig einhverja sýn á hlutina og vilja sjá eitthvað sem er í takti við hana.“

Hagur beggja aðila

Nemendur vinna í mælingunum ásamt kennurunum og geta nýtt sem efni í lokaverkefni sem dæmi. Fyrir skólann er því annars vegar hagur í því að stunda rannsóknastarf og hins vegar að geta boðið nemendum í íþróttafræði aðgang að sumu af snjallasta íþróttafólki þjóðarinnar. Íþróttafólkið og sérsamböndin fá á móti upplýsingar um líkamlega og andlega getu. Þar er hægt að fá góðar vísbendingar um hvar skórinn kreppir og vinna út frá því.

Grunnmælingarnar eru svipaðar en einnig eru mismunandi áherslur eftir eðli íþróttagreinanna.

„Mælingarnar eru mismunandi eftir íþróttagreinum. Í grunninn þá mælum við þol hjá öllum nema golfsambandinu enda er sú íþrótt ólík hinum. Við mælum til dæmis þol, stökkkraft, hraða, skotkraft í handbolta og fótbolta og stefnubreytingar í boltagreinunum. Einnig mælum við íþróttasálfræðilega færni eins og hvort fólkið geti stjórnað spennu og hvernig það vinnur undir andlegu álagi. Við mælum keppniskvíða, hugarþjálfun, andlega hörku og einnig hvað hvetur fólk áfram. Í golfíþróttinni mælum við hreyfigetu og sveiflan er greind ítarlega. Auk þess mælum við aðra þætti hjá hestamönnum og fyrir Mjölni,“ útskýrði Hafrún og Ingi bætti við.

„Hjá fötluðum snýst þetta um að finna lausnir til að hægt sé að mæla sem flesta. Við höfum aðlagað prófin til að hægt sé að nota þau fyrir mismunandi fötlunarflokka.“

Þjálfun byggð á niðurstöðum

Spurð um hvernig viðbrögðin hafi verið hjá sérsamböndunum þá segja HR-ingarnir þau hafa verið jákvæð.

„Viðbrögðin hafa verið ótrúlega jákvæð á heildina litið. Það gat komið fyrir að einhverjir þjálfarar vildu vita hvers vegna væri verið að mæla þeirra leikmann en þegar við útskýrðum um hvað málið snerist þá voru flestir mjög ánægðir. Ég veit ekki annað,“ sagði Hafrún og Margrét tekur í sama streng.

„Ég tel að samstarfið hafi haft jákvæð áhrif út á við en einnig inn á við. Í nemendahópnum sér fólk tilganginn og á öðru ári í náminu fá þau að taka þátt í mælingum. Þá sjá þau hvernig rannsóknarstarf virkar. Þú þarft að byggja það sem þú gerir í þjálfunarstarfinu á einhverjum niðurstöðum en ekki tilfinningum eða geðþótta,“ sagði Margrét.

Vísir að rannsóknarmiðstöð

Ekki er gott að segja til um hvort samstarfið sé komið til að vera því samstarfssamningarnir eru tímabundnir. Teikn eru þó á lofti um að fara í langtímasamstarf við alla vega eitt sérsambandanna sem er nú í viðræðum við HR um að gera ótímabundinn samning.

„Ef við tökum dæmi um landsliðsfólk sem var mælt hjá okkur í U-17 landsliði þá gæti verið fróðlegt að skoða það tíu árum síðar. Þá væri auðveldara að sjá hvort þeir sem skila sér úr 16 ára landsliði upp í A-landslið eigi eitthvað sameiginlegt. Hvort þau sem hafa meiðst eigi eitthvað sameiginlegt o.s.frv. Við erum í nokkuð sérstakri stöðu því við erum að mæla fólk úr mörgum greinum og vinnum með mörgum af helstu sérsamböndunum. Þess vegna má segja að hér sé að myndast rannsóknarmiðstöð fyrir afreksíþróttir,“ sagði Hafrún ennfremur við Morgunblaðið.