Vala Pálsdóttir
Vala Pálsdóttir
Eftir Völu Pálsdóttur: "Ákveðin öfl tala einnig um að almenningur eigi skilið sterkan málsvara gegn stjórnlyndi. Nú gera þeir atlögu að ráðherra sem neitar því að stjórnkerfið starfi án ábyrgðar og sé þannig ríki í ríkinu."

Í alþingiskosningunum sl. haust töluðu sumir stjórnmálamenn fyrir því að vilja eyða allri leyndarhyggju. Nú fara þessir sömu aðilar gegn þeim dómsmálaráðherra sem setti fótinn niður við einkaklúbb valnefndar sem taldi einungis fimmtán dómara vera hæfa í Landsrétt. Aðeins 0,025 stig skildu þar á milli feigs og ófeigs. Ljóst var frá upphafi að ekki var meirihluti á Alþingi fyrir tillögu aukastafsnefndarinnar og því lagði ráðherra fram nýja tillögu á málefnalegum grunni. Meirihluti Alþingis samþykkti þá tillögu ráðherra. Þeir sem nú tala hæst virðast fljótir að gleyma eigin kosningaloforðum. Enginn veit hvernig valnefndin komst að þessari niðurstöðu og valdi 15 umsækjendur umfram hina 22. Umboðsmaður Alþingis hefur meira að segja boðað skoðun á störfum dómnefndar um hæfi umsækjenda. Hvar eru efndir og tal um aukið gagnsæi?

Ákveðin öfl tala einnig um að almenningur eigi skilið sterkan málsvara gegn stjórnlyndi. Nú gera þeir atlögu að ráðherra sem neitar því að stjórnkerfið starfi án ábyrgðar og sé þannig ríki í ríkinu. Ráðherrann sem afnam það ferli að dæmdir kynferðisbrotamenn fengju uppreist æru á færibandi, undirbýr nú lög þess efnis að börn foreldra sem hafa skilið geti haft tvö lögheimili svo jafnréttis sé gætt og leggur til að helgidagafriður skuli afnuminn. Þessi sami ráðherra vill afnema mannanafnalög og mun vafalaust fá samþykki meirihluta Alþingis fyrir því. Stjórnmálamenn sem vilja ekki að ráðamenn takmarki borgaraleg réttindi ættu öllu heldur að bera fullt traust til þessa ráðherra.

Þessir kjörnu fulltrúar eru líka að gera lítið úr því að í fyrsta sinn í sögu dómsvalds á Íslandi er kynjahlutfall dómara á einu dómstigi jafnt. Má skilja það sem svo að þeir sem nú berjast gegn dómsmálaráðherra vilji viðhalda ójöfnu hlutfalli kynjanna? Sumir hefðu jafnvel slegið sig til riddara hefðu þeir sett jöfn kynjahlutföll í Landsrétt sem kosningamál og komið því svo í framkvæmd. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafa ekki áttað sig á því að málsvarinn gegn stjórnlyndi, ógagnsæi og kerfisákvörðunum er fundinn en í blindu hatri hafa þeir ákveðið að fara gegn honum. Nú fara þeir gegn betri vitund með vantrauststillögu sinni.

Höfundur er formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.