Hvarf Frances McDormand og sonur hennar, Pedro McDormand Coen, með óskarsstyttuna í samkvæminu skömmu áður en verðlaunagripurinn eftirsótti hvarf.
Hvarf Frances McDormand og sonur hennar, Pedro McDormand Coen, með óskarsstyttuna í samkvæminu skömmu áður en verðlaunagripurinn eftirsótti hvarf. — AFP
Í samkvæmi eftir óskarsverðlaunaafhendinguna á sunnudagskvöldið var verðlaunastyttunni gullslegnu, sem Frances McDormand hreppti fyrir bestan leik í kvenhlutverki, stolið.

Í samkvæmi eftir óskarsverðlaunaafhendinguna á sunnudagskvöldið var verðlaunastyttunni gullslegnu, sem Frances McDormand hreppti fyrir bestan leik í kvenhlutverki, stolið. McDormand kom með óskarinn í samkvæmið, þar sem nafn hennar var grafið á gripinn, og eftir myndatöku lagði hún styttuna frá sér á borð meðan hún fékk sér í svanginn.

Skömmu síðar tók ljósmyndari, sem hafði verið ráðinn til að taka myndir í veislunni, eftir að maður nokkur gekk til dyra með verðlaunastyttu í höndunum og þótti ljósmyndaranum það sérkennilegt og smellti af honum mynd. Og gott betur; hann benti öryggisverði á manninn, elti hann síðan og tók af honum styttuna – að sögn lögreglunnar án þess að til átaka kæmi. Kom þá í ljós að styttan var merkt McDormand, sem fagnaði því að endurheimta gripinn.

Í millitíðinni hafði rummungurinn náð að taka af sér myndband með styttuna og dreifa á samfélagsmiðlum. Hann sést kyssa hana og fagna með orðunum: „Liðið mitt fékk þetta í kvöld. Þessi er minn.“

Þjófnum, sem var klæddur í smóking og með aðgöngumiða í samkvæmið, var sleppt gegn tryggingu en á ákæru yfir höfði sér; samkvæmt fréttum allt að þriggja ára fangelsi.

Talsmaður McDormand sagði þau Óskarinn hafa haldið upp á endurfundina með því að fá sér ostborgara, tvöfaldan.