Úr þingsal Allir þingmenn voru við umræður og atkvæðagreiðslu um tillögu um vantraust á dómsmálaráðherra. Meirihlutinn felldi tillöguna.
Úr þingsal Allir þingmenn voru við umræður og atkvæðagreiðslu um tillögu um vantraust á dómsmálaráðherra. Meirihlutinn felldi tillöguna. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason Anna Sigríður Einarsdóttir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra sé ekki treystandi til að fara með málefni dómstólanna í landinu.

Helgi Bjarnason

Anna Sigríður Einarsdóttir

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra sé ekki treystandi til að fara með málefni dómstólanna í landinu. Hann var fyrsti flutningsmaður tillögu Samfylkingarinnar og Pírata til þingsályktunar um vantraust á dómsmálaráðherra. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist ekki fá séð að rökin með vantrauststillögunni væru fullnægjandi.

Vantrauststillagan var felld. 29 þingmenn greiddu henni atkvæði en 33 voru á móti. Niðurstaðan fór að miklu leyti eftir línum stjórnar og stjórnarandstöðu. Þó greiddu tveir þingmenn VG, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björg Brynjólfsdóttir, atkvæði með stjórnarandstöðunni, studdu vantraust, og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Logi sagði í framsöguræðu sinni að aðalatriði málsins væri að vegna ólögmætrar embættisfærslu væri óvissa um heilt dómstig. Bréf umboðsmanns Alþingis gæfi fullt tilefni til að ætla að allt væri komið fram er varðaði embættisfærslur dómsmálaráðherra. Engin mál fyrir dómstólum snérust um stöðu dómsmálaráðherra, eingöngu um slæmar afleiðingar ólögmætrar embættisfærslu ráðherra. „Þess vegna er dómsmálaráðherra ekki treystandi til að fara með málefni dómstólanna í landinu eða vinda ofan af þeim vandræðagangi sem dómstólar eru komnir í. Hún verður því að axla ábyrgð á þeim og það er nauðsynlegt að það birtist með skýrum hætti,“ sagði hann.

Koma höggi á ríkisstjórnina

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði meðal annars í sinni ræðu að þeir sem stæðu að þessari tillögu væru í leiðangri sem gengi út á það eitt að reyna að koma höggi á ríkisstjórnina.

„Í ljósi þeirrar langdregnu umræðu sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa staðið fyrir um þetta mál, sem er löngu upplýst og margskoðað, verð ég að segja að það er visst fagnaðarefni að fá hér tækifæri til að binda formlega enda á málið, fá tækifæri til að lýsa stuðningi við ráðherrann hér á Alþingi,“ sagði Bjarni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sagði ekki rétt að afsögn dómsmálaráðherra eyddi réttaróvissu vegna skipunar dómara í Landsrétt, henni yrði eingöngu eytt með því að dómstólar lykju málsmeðferð sinni.

„Ég fæ satt að segja ekki séð að rökin með þessari vantrauststillögu séu fullnægjandi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Sæmir ekki ráðherra

„Í stað þess að gleðjast yfir þeim tímamótum, sem stofnun Landsréttar er, þá hafa þau verið sveipuð tortryggni og vantrausti,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir er hún gerði grein fyrir sínu atkvæði. Andrés Ingi sagði stöðu Landsréttar vera eina ástæðu þess að hann hefði ekki stutt stjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins eftir síðustu kosningar. „Mér þótti málið slæmt í nóvember, en síðan hefur það stöðug versnað.“ Vinnubrögðin sæmi ekki ráðherra.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagðist telja ríkisstjórnina vonda en lagalegar hliðar dómaraskipanar væru þó þess eðlis að hann styddi ekki tillöguna.