Listfræðingur Aðalsteinn Ingólfsson handleikur málverk eftir Kristján Davíðsson en um hann hefur Aðalsteinn skrifað bók.
Listfræðingur Aðalsteinn Ingólfsson handleikur málverk eftir Kristján Davíðsson en um hann hefur Aðalsteinn skrifað bók. — Morgunblaðið/Kristinn
Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur á 70 ára afmæli í dag.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur á 70 ára afmæli í dag. Spurður um það sem hann hefði helst fyrir stafni þessa dagana svaraði Aðalsteinn: „Ætli ég brenni ekki enn fyrir því sama sem ég gerði fyrir rúmlega fjörutíu árum, sögu íslenskrar myndlistar. Ég er að kenna listfræði uppi í Háskóla Íslands í dag og að því loknu held ég áfram að berja saman grein um íslenska listakonu fyrir tímaritið Skírni í kompu minni heima. Á morgun og um helgina er ég með leiðsögn um sýningar í Reykjavík og Listasafni Reykjaness, og í næstu viku er sömuleiðis fullt prógramm, m.a. fundir í tengslum við bækur um íslenska myndlist og menningarferð til Lissabon.“

Hvað hefur afmælisbarnið sér til afþreyingar þess utan?“ Veturnir fara mikið í útivist ýmiss konar, með og án hunda, bóklestur, eltingaleik við góða tónlist, matargerð og í seinni tíð margs konar barnabarnastúss, sem er kannski það skemmtilegasta af þessu öllu. Á sumrin leggst ég í skreppitúra til afskekktra staða og útlanda og meiri útivist, þ.ám. fluguveiði.“

Og í tilefni dagsins? „Ég var að vona að ég kæmist klakklaust frá þessum degi, en fjölskyldan hafði aðrar hugmyndir. Í kvöld borða ég með fjölskyldu minni á valinkunnu indversku veitingahúsi hér í bæ, en indverskur matur er með því allra besta sem við þekkjum.“

Eiginkona Aðalsteins er Janet S. Ingólfsson, börn þeirra eru Elva Brá, Signý og Drífa og barnabörnin eru orðin sjö.