Björgvin Vilmundsson fæddist 7. júní 1947 í Grindavík. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 24. febrúar 2018.

Foreldrar hans voru Marín Margrét Jónsdóttir, f. 22. febrúar 1905 á Löndum á Miðnesi, d. 29. desember 1973, og Vilmundur Stefánsson, f. 12. september 1902 á Ketilstöðum á Völlum, S-Múlasýslu, d. 11. nóvember 1989. Systkin Björgvins eru Guðríður Stefanía, f. 19. desember 1935, d. 22. maí 2005, Sæbjörg María, f. 10. apríl 1940, og Sigurður Jón, f. 19. mars 1945.

Eiginkona Björgvins er Sigríður Þórleif Þórðardóttir úr Reykjavík, f. 13. september 1948, og gengu þau í hjónaband 9. desember 1977. Börn þeirra eru: 1) Ingibjörg Marín, f. 27. ágúst 1978, maki Jón Fanndal Bjarnþórsson, f. 14. janúar 1976. Börn þeirra eru Hanna Margrét, f. 18. nóvember 1999, Sigríður Emma, f. 9. nóvember 2004, Kristjana Marín, f. 27. nóvember 2008, og Svala María, f. 28. september 2010. 2) Björgvin, f. 26. nóvember 1981, fyrrverandi maki Linda Sylvía Hallgrímsdóttir, börn þeirra eru Elísabet Inga, f. 8. desember 2005, og Sylvía Björg, f. 11. maí 2009.

Útför Björgvins fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 7. mars 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Ljúfar minningar líða um huga minn,

er legg ég rauða rós á beðinn þinn.

Bið hann Guð að leggja okkur lið,

líta björtum augum fram á við.

(SMV)

Elsku eiginmaður minn og vinur, ég vil þakka þér samfylgdina í gegnum árin og allar góðu stundirnar okkar.

Megi góður Guð vernda þig og varðveita.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem.)

Þín eiginkona,

Sigríður Þ. Þórðardóttir.

Lífið er svo sannarlega þess virði að lifa því í gleði og með bros á vör, því maður veit aldrei hvenær maður þarf að kveðja. Það sagðir þú alltaf við mig þegar ég var að alast upp.

Svo sannarlega gerðir þú það því í minningunni varst þú alltaf brosandi, glaður og með brandarana alveg á hreinu. Undanfarna daga hef ég hitt margt gott fólk sem hefur gefið manni knús og segir svo alltaf sömu setninguna „pabbi þinn var alltaf brosandi“.

Alveg þar til vikuna sem þú veiktist svona mikið þá varstu glaður og brosandi og reyndir að gera gott úr öllu þó að Alzheimerinn hefði verið búinn að ná miklum tökum á þér.

Þú varst mikill pabbi og síðar afi. Vildir gera allt sem þú gætir fyrir okkur systkinin. Alveg sama hvað það var sem ég bað um, gerðir þú það með bros á vör. Hvort sem það var að mála herbergið mitt, breyta því eða jafnvel færa það, þá var það nú lítið mál. Þegar ég var um átta eða níu ára fannst þér nú ekki tiltökumál að setja vöfflur í allt hárið á mér þegar ég fór í bekkjarafmæli svo ég yrði nú fín. Allar ferðirnar á fótboltaleikina sem þú skutlaði okkur vinkonunum á voru nú skemmtilegar og þú þagðir meðan við fífluðumst í bílnum og komst svo með brandara sem fékk okkur til að hlæja meira.

Mikið varstu síðan alltaf stoltur af okkur börnunum, ég man mjög vel eftir deginum þegar við Nonni sögðum þér að ég væri orðin ólétt að okkar fyrsta barni, gleðin og ánægjan skein úr augunum á þér, mikið hlakkaðir þú til að verða afi og góður afi varstu. Þegar við fluttum svo aftur til Grindavíkur hjálpaðir þú okkur mikið, alltaf boðinn og búinn enda mjög klár maður á öllum sviðum. Þú varst svo stoltur af því hvað við værum búin að koma okkur vel fyrir og gera fallegt í kringum okkur, enda mikill snyrtipinni sjálfur.

Handlaginn maður varstu og gerðir allt vel. Þið mamma hafið átt þónokkur hús og gerðir þú þau öll upp, vel og vandlega þar til þau voru orðin fullkomin, þá fluttuð þið og byrjuðuð að nýju. Þú þurftir alltaf að vera að, meira að segja eftir að þú veiktist þá varst þú að færa til hluti allan daginn því þú varst svo vinnusamur og duglegur.

Eftir að þú veiktist talaðir þú mikið um hana mömmu þína sem ég er skírð í höfuðið á, hana Maju á Akri, vildir mikið fara að heimsækja hana og mamma var svo dugleg að keyra að Akri þar sem þú ólst upp og sýna þér að þú ættir ekki heima þar lengur og mamma þín væri löngu dáin og þá kom sorgin í fallegu ljósbláu augun þín. En núna getum við huggað okkur við það að þú ert loksins búin að hitta hana aftur sem og afa og Gauju eldri systur þína.

Á sama tíma og við erum sorgmædd yfir því að þú sért farinn þá finnum við samt smá fyrir létti að þú sért laus við allar þjáningarnar sem fylgdu þessum sjúkdómi, kominn í fang foreldra þinna, glaður og ánægður og með bros á vör eins og allir muna eftir þér.

Elsku pabbi, nú kveð ég þig í hinsta sinn og vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.

Elska þig mikið, þín pabbastelpa

Ingibjörg (Inga Marín).

Pabbi.

Ég sit hér við tölvuna og hugsa til baka og vil þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig hvort sem það var að skutla mér eitthvað, eða seinna að hjálpa mér við að laga íbúðina eða bara hvað sem var.

Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa manni með hvað sem var og alltaf varstu kominn um leið og maður bað þig um það. Því þannig maður varstu, alltaf boðinn og búinn að hjálpa.

Þín einkenni voru léttleiki, dugnaður, greiðasemi og snyrtimennska og sýndir þú þetta allt í öllu sem þú gerðir og alltaf varstu að.

Takk fyrir allt. Elska þig.

Þinn sonur

Björgvin.

Elsku Böggi.

Nú ertu farinn og laus við allar þjáningarnar sem fylgdu þessum hræðilega sjúkdómi. Mikið var skrítið og erfitt að sjá sjúkdóminn ná yfirhöndinni og sjá þig hverfa smátt og smátt.

En alltaf var stutt í húmorinn og gátum við hlegið nánast yfir öllu þegar við hittumst sem var nánast daglega.

Framkvæmdaáhuginn var alltaf til staðar hjá þér og fylgdist þú með öllu sem við gerðum og hjálpaðir til eins og þú mögulega gast alla tíð.

Varst mikill og fær iðnaðarmaður sem vildir alltaf vera að gera eitthvað en gerðir nú lítið úr því og sagðir að þú værir bara rétt að snudda eitthvað.

Við áttum líka sameiginlegt áhugamál sem voru bílar og það var sko mikið hægt að tala um þá.

Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur Ingu og börnin, alla hjálpina og góðu stundirnar.

Við eigum eftir að sakna þín mikið.

Kveðja, þinn tengdasonur,

Jón Fanndal.

Elsku afi. Þú varst alltaf svo góður afi, vildir allt fyrir okkur gera. Þegar við komum til ykkar ömmu sagðir þú alltaf að þú mættir ráða og mættir alveg gefa okkur ís og súkkulaðiköku og vorum við mjög glaðar með það og nýttum okkur það vel. Þú varst alltaf svo stoltur af okkur afastelpunum þínum.

Við vissum allar vel að þú værir veikur og reyndum við eins og við gátum að hjálpa til, amma hringdi oft í okkur og bað okkur að koma og hjálpa við að gefa þér lyf eða annað sem þurfti, því þú ljómaðir alltaf af gleði þegar við komum, fannst þér mikið öryggi að hafa okkur afastelpurnar þínar til að halda í höndina þína og styðja þig.

Stutt var í stríðnina þína og var alltaf mikil gleði í kringum þig.

Mikið var gaman þegar við gátum öll verið saman um síðustu áramót. Við allar frænkurnar og þú og amma líka. Þér fannst svo gaman að þú vildir ekki fara heim fyrr en tvö um nóttina. Þá vorum við búin að sprengja allar raketturnar og kveikja á öllum blysunum og drekka allt barnakampavínið með þér og ömmu.

Við eigum eftir að sakna þín mikið og við lofum að passa ömmu vel fyrir þig.

Þínar afastelpur

Emma, Elísabet, Jana, Sylvía og Svala.

Elsku bróðir, nú ert þú farinn frá okkur eftir löng og erfið veikindi.

Það var erfitt að horfa á þig hverfa smátt og smátt.

En þú varst góður og glaður, samt sár og ósáttur síðustu árin í vinnunni, þar sem þú varst farinn að finna fyrir vanmætti þínum og þú þoldir ekki breytingar, en þeir sem í kring um þig voru áttuðu sig ekki á því hvað var að gerast.

En þannig er alzheimer-sjúkdómurinn. Á stuttum tíma misstirðu verkvitið og gast ekki gert það sem þú hafðir alltaf getað.

Böggi bróðir var mikill Grindvíkingur, fæddur og alinn upp á Akri, niðri við sjó, yngstur fjögurra systkina.

Bernskuárin fóru í leiki í sjóskúrnum, fjörunni og bryggjunum og að hjálpa til með rollurnar og hænsnin.

Bardagaleikir, smíða báta sem róið var á í höfninni, smíða bíla og kofa.

Það var gaman að lifa og leika.

Tíu ára fékk Böggi berkla og átti við þau veikindi að stríða í um eitt ár og missti úr einn vetur í skóla, sem var honum mjög erfitt alla tíð.

Þegar Böggi bróðir er um þrítugt kemur stóra ástin inn í líf hans, hún Sirrý. Með henni eignaðist hann tvö börn, þau Ingu Mæju og Bjögga, sem hafa alla tíð verið augasteinarnir hans og stolt. Síðan komu barnabörnin og þá varð lífið yndislegt.

Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hversu umhyggjusöm og dugleg Sirrý hefur verið.

Hún hugsaði um Bögga sinn dag og nótt þar til yfir lauk. Hafi hún innilega þökk fyrir, það er ekki sjálfgefið.

Það er erfitt að kveðja Bögga bróður og fá ekki að njóta samvista við hann lengur, en vonandi líður honum betur núna.

Elsku Sirrý okkar, Ingu Mæju, Bjögga og fjölskyldunni sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minningin lifir.

Sæbjörg systir, Sigurður (Siggi) bróðir, Salbjörg (Salla) og fjölskyldur.

Í dag kveð ég yndislegan móðurbróður minn og hugurinn reikar til æsku minnar, ég var svo heppin að vera mikið hjá ömmu og afa á Akri þegar þeir bræður Björgvin og Sigurður voru enn í foreldrahúsum. Þeir voru duglegir að dekra við litlu frænku sína og bjóða á rúntinn stöku sinnum. Þegar ég var að nálgast unglingsárin bjó Björgvin hjá okkur um tíma, hann var þá sjómaður og fór í Norðursjóinn sem kallað var og var aflinn þá seldur í Danmörku. Það var mjög spennandi þegar hann kom heim með alls konar góðgæti sem maður var ekki vanur að fá hér og minnir mig að þá hafi ég séð og smakkað Mackintosh í fyrsta sinn. Björgvin var smiður af guðs náð og byggði hann sér hús ungur maður og kynntist konu sinni Sigríði og eignuðust þau tvö börn sem ég passaði stundum. Það var alltaf gott að koma á heimili þeirra hjóna enda bæði mjög gestrisin, hláturmild og glöð. Ég vil þakka þér, elsku frændi minn, fyrir samfylgdina í gegnum árin og veit að það hefur verið tekið vel á móti þér í sumarlandinu.

Elsku Sigríður, Inga Marín, Björgvin, tengdabörn, barnabörn og aðrir aðstandendur, megi minningin um góðan dreng lifa í hjörtum okkar.

Þín frænka

Kristín Þorsteinsdóttir.

Það eru að verða fjörutíu ár síðan ég bankaði að dyrum á Borgarhrauni 22 í fyrsta sinn. Til dyranna kom ungur maður, brosmildur og hlýr sem ég hafði ekki séð áður. Þetta var Björgvin Vilmundsson. Það leyndi sér ekki er við röbbuðum saman yfir kaffibolla að við myndum ná vel saman, enda starfsumhverfi okkar og áhugamál svipuð hvort sem við vorum á sjó, í smíðum, í veiði eða á ferðalagi um landið. Við höfðum fallið fyrir systrum með ríka fjölskyldusamstöðu. Það var því ljóst að með okkur tækist góð vinátta sem myndi endast.

Í mörg ár höfðum við þá reglu að fara saman í viku veiðiferð í Tungufljótið með fjölskyldum okkar, Sjöfn mágkonu okkar og hennar fjölskyldu. Jafnan var hafður sá háttur á að unga fólkið hafði veiðihúsið fyrir sig en við hin fullorðnu vorum í bústaðnum okkar sem er í næsta nágrenni. Þessar ferðir voru ekki bara veiðiferðir, heldur var það frelsið sem allir höfðu til að leika sér, fara í dagsferðir á Hornafjörð, Landmannalaugar, Skaftafell eða jafnvel í búðarferð til Víkur eða á búðarloftið á Melhóli. Að sjálfsögðu endaði svo hver dagur með góðri grillveislu. Það leyndi sér aldrei að þetta var ómissandi þáttur í sumarfríi okkar allra. Ég vissi alltaf að þessar ferðir gáfu þér mikið eins og kom berlega í ljós síðustu árin því þrátt fyrir veikindi þín spurðir þú mig alltaf er við hittumst hvort við ættum ekki að fara í bústaðinn í sumar. Það gleymdist aldrei.

Það er með söknuði sem ég kveð þig í dag, vinur, en mér er huggun að vita að góðir menn fara alltaf á góðan stað.

Elsku Sirrý, Inga Maja, Björgvin og ástvinir allir, megi Guð vera með ykkur og gefa ykkur styrk í sorginni.

Gísli Sveinsson.

Það er sól í heiði og í grasi gróinni brekkunni á Flögu í Vestur-Skaftafellssýslu stendur skælbrosandi maður, þessi ljóslifandi mynd kemur upp í hugann er ég minnist Björgvins Vilmundssonar. Þarna úti í guðsgrænni náttúrunni umvafinn stórfjölskyldunni var hann glaður. Reyndar minnist ég Björgvins aldrei öðruvísi en brosandi. Hann var góðmennskan uppmáluð, og vildi allt fyrir alla gera.

Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir 38 árum, og á þau kynni hefur aldrei fallið skuggi.Við Björgvin vorum ólíkir, hann fæddur og uppalinn í Grindavík en ég hið dæmigerða borgarbarn sem aldrei hafði í sveit komið. Við áttum þó eitt sameiginlegt, en það var að hafa sem ungir menn stundað sjómennsku. Hann sagði mér margar skemmtilegar sögur frá því er hann stundaði síldveiðar í Norðursjó, og landlegum í Hirtshals í Danmörku. Ekki er hægt að minnast Björgvins án þess að minnast á hversu einstaklega handlaginn hann var, en sem ungur maður byggði hann sér sjálfur glæsilegt einbýlishús í Borgarhrauni 22 í Grindavík. Þær eru líka ófáar íbúðirnar sem hann gerði upp, og allt sem hann gerði gerði hann einstaklega vel. Það var ekki eigingirninni fyrir að fara hjá Björgvini, hann hugsaði alltaf meira um aðra en sjálfan sig.

Mér fyrir hugskotssjónum stendur hann nú í annarri grasi gróinni brekku, brosandi kveðjubrosi.

Hafðu þökk fyrir allt, kæri vinur – við sjáumst síðar.

Þinn vinur

Árni Jónsson Sigurðsson.