Norður-Kóreumenn opna á viðræður um kjarnorkuvopn sín

Chung Eui-yong, þjóðaröryggisráðgjafi Suður-Kóreu, sneri í gær til baka frá fundi sínum með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, með þau skilaboð að hann og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu myndu hittast í lok apríl. Verði af fundinum yrði það einungis í þriðja sinn sem leiðtogar Kóreuríkjanna ræða saman augliti til auglitis.

Það sem vakti þó enn meiri athygli var að Kim var að sögn Chungs einnig reiðubúinn til þess að ræða við Bandaríkjamenn um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu, sem yrði þá með þeim skilyrðum að öryggi landsins, og það sem skiptir Kim ekki síður máli, öryggi stjórnar hans yrði tryggt um fyrirsjáanlega framtíð.

Þetta gæti verið jákvætt skref í kjarnorkudeilunni við Norður-Kóreu, það er að segja ef rétt reynist að Norður-Kóreumenn séu nú loks í raun tilbúnir til þess að láta kjarnorkuvopn sín af hendi. Öll heimsbyggðin gæti þá andað léttar, ekki síst íbúar Kóreuskagans, ef varanleg lausn fyndist á kjarnorkudeilunni.

Það skal hins vegar forðast að fagna nokkru of snemma í þessum efnum. Líklegt verður að telja að Kim vilji einungis kaupa stjórn sinni meiri tíma til þess að þróa enn fullkomnari eldflaugar og kjarnaodda en Norður-Kóreumenn hafa náð undraverðum árangri í þeim efnum á síðustu mánuðum. Þá fer því fjarri að hægt sé að ganga út frá því að hugur fylgi máli þó að Kim láti friðvænlega nú. Og fyrri reynsla bendir ekki til þess að Norður-Kóreumönnum sé treystandi til þess að standa við þá samninga sem gerðir yrðu við þá.

Þá er það ennfremur staðreynd að jafnvel viðræður sem fram færu af fullum heilindum gætu hæglega farið úrskeiðis vegna ýmissa mála, eins og því hvernig eftirlit ætti að hafa með afvopnunarferlinu eða því hvernig og hvenær ætti að aflétta refsiaðgerðum sem settar hafa verið á landið en þær eiga líklega stærstan þátt í því að Kim virðist sáttfús nú.

Þá má heldur ekki gleyma því að með því að tryggja stjórn Norður-Kóreu til lengri tíma væri óbeint verið að skrifa upp á það að um 25 milljónir manna byggju áfram við það hörmungarástand sem ríkir þar. Á hinn bóginn mætti þá vona að með betri tengslum við umheiminn gætu lífskjör þess batnað þó að sú von sé eflaust lítil.

Þrátt fyrir sjálfsagðar efasemdir um að hugur fylgi máli er eðlilegt að láta á það reyna hvort hægt er að ná samningum sem halda við Norður-Kóreu. Um leið er sjálfsagt að stilla væntingum í hóf og sýna áfram fulla festu í samskiptunum við alræðisstjórnina í Pyongyang.