— Morgunblaðið/Hanna
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Rúmlega 4.300 nemendur í 141 grunnskóla þreyta samræmt könnunarpróf í íslensku í dag. Nemendur í 9. bekk þreyta prófið í ár en ekki nemendur í 10. bekk eins og síðustu ár.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Rúmlega 4.300 nemendur í 141 grunnskóla þreyta samræmt könnunarpróf í íslensku í dag. Nemendur í 9. bekk þreyta prófið í ár en ekki nemendur í 10. bekk eins og síðustu ár. Sverrir Óskarsson, sviðstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, segir að tilgangurinn með að hafa prófið fyrir börn í 9. bekk sé að færa það fjær því að vera lokapróf og nær því að vera könnunarpróf. „Hugmyndin var sú að hafa þetta ekki lokapróf heldur hafa þetta könnunarpróf. Nota þetta betur sem tæki til að veita nemendum, foreldrum og skóla endurgjöf á styrk- og veikleika nemandans. Þannig að það væri meira svigrúm innan grunnskólans til að vinna betur úr því og bregðast við.“

Spurður segir hann að nemendur eigi ekki að hugsa prófið sem hluta af inntökuferli í framhaldsskóla. „Við erum einmitt að reyna að draga úr því. Þetta er ekki gagn fyrir framhaldsskóla. Það verða heilmiklar breytingar á þessu eina ári og krökkum standa margar leiðir til boða. Það er mjög mikilvægt að hanga ekki í því að láta eitt svona próf ákveða hlutina.“ Segir hann einnig að það sé hans persónulega skoðun að prófin ættu ekki að vera hluti af inntökuferlinu. „Ég er á þeirri skoðun að samræmd könnunarpróf eigi ekki að vera efniviður fyrir framhaldsskólana til að meta inntöku. Þetta eru próf með afmarkaða þætti sem eiga að vera endurgjöf til nemenda og foreldra á uppbyggilegan og jákvæðan hátt.“

Breyttar áherslur með árunum

Sverrir segir að áherslurnar sem prófaðar eru í samræmdu prófunum hafi breyst mikið með árunum. Prófin í ár eru fjórðu prófin sem eru rafræn og var nemendum í fyrsta skipti í ár boðið að spreyta sig á kynningarprófi á netinu. Segir hann prófin leggja meiri áherslu á leikni og hæfni en gert var áður fyrr. „Við vorum í gömlu prófunum að spyrja þekkingarspurninga og nú erum við að færa okkur yfir í það að meta leikni og hæfni nemenda. Við erum að biðja nemendur um að lesa út úr þrautum, lesa út úr stöplaritum, draga ályktanir og sýna meiri lesskilning. Við erum að reyna að þróa námsmatið meira í átt að leikni og hæfni.“ Segir hann að þessi breyting sé til þess að mæta hæfniskröfum 21. aldarinnar en einungis er prófað í þremur fögum í núverandi fyrirkomulagi: íslensku, stærðfræði og ensku. Hann segist vera afar bjartsýnn á gengi nemenda í prófunum og telur börn í dag vera mun klárari en áður og nefnir m.a. öfluga enskukunnáttu unglinga sem dæmi.

Undirbúa sig vel fyrir prófin

Morgunblaðið ræddi við Regínu Sjöfn Sveinsdóttur og Ísak Leon Júlíusson, nemendur í 9. bekk í Vatnsendaskóla um upplifun þeirra af undirbúningi fyrir samræmdu prófin. Þau segja að nemendur séu afar meðvitaðir um að prófin geta verið hluti af umsóknarferli í menntaskóla og margir hverjir leggja mikið á sig vegna þess. „Það er mismunandi hvort nemendur taka þetta alvarlega og vilja komast í góðan menntaskóla,“ segir Regína og bætir Ísak við að „sumir læri ekki neitt á meðan aðrir læri mjög mikið“.

Undanfarnar vikur hefur stór hluti af kennslu farið í undirbúning fyrir prófin og hafa þau þreytt mikið af þeim prófum sem lögð hafa verið fyrir 10. bekk árin áður. „Við erum mikið að fara yfir gömul samræmd próf í tímum,“ segir Regína. „Það er farið nokkuð vel yfir þetta í skólanum en ég læri líka vel heima og reyni að kíkja á gömul próf þegar ég kem heim úr skólanum,“ segir Ísak.

Spurð um hvernig áhersla kennara hafa verið á mikilvægi samræmdu prófanna segja þau að skilaboðin hafi verið í báðar áttir. „Sumir kennarar segja að þetta skipti engu máli og við eigum bara ekki að vera stressuð. Aðrir segja að við verðum að standa okkur vel,“ segir Regína.

Þar sem þau eru fyrsti árgangurinn sem þreytir prófin í 9. bekk benda þau bæði á að ákveðin óvissa fylgi því hvað gæti komið á prófunum. „Maður fær engan beinan gátlista, og því veit enginn hvernig prófin verða. Kennararnir eru með lista yfir hvað nemendur eiga að kunna eftir 9. bekk og ég held það verði aðallega farið eftir því. Við erum svolítið oft í prófum í okkar skóla en maður er búinn að læra hvernig maður á að læra fyrir þau, en hér veit maður ekkert út í hvað maður er að fara með þetta,“ segir Regína. Ísak tekur undir og segir að það sé öðruvísi að læra fyrir þessi próf en önnur. „Ég myndi segja að það væri meiri pressa í þessum prófum en öðrum prófum“. Þau eru sammála um að það sé meiri einbeiting meðal nemenda í undirbúningi fyrir samræmdu prófin og minni læti í tímum. En þar sem mikill tími hefur farið í yfirferð eldri prófa, segja þau einnig bæði að það sé orðið þreytt að vera alltaf að gera það sama og virðast spennt að ljúka við prófin.