Auðnutittlingar Fullorðinn fugl fóðrar unga í Laugardal í Reykjavík. Flestir fuglar sem merktir voru hér í fyrra voru auðnutittlingar. Auðnutittlingur er lítil finka og eru fullorðnir fuglar auðþekktir á rauðum ennisfjöðrum.
Auðnutittlingar Fullorðinn fugl fóðrar unga í Laugardal í Reykjavík. Flestir fuglar sem merktir voru hér í fyrra voru auðnutittlingar. Auðnutittlingur er lítil finka og eru fullorðnir fuglar auðþekktir á rauðum ennisfjöðrum. — Morgunblaðið/Golli
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Nýt met var sett í fuglamerkingum í fyrra og voru merktir 21.470 fuglar af 85 tegundum. Í fyrra komu 52 aðilar að fuglamerkingunum. Aldrei áður hafa yfir 20.000 fuglar verið merktir hér á einu ári, að sögn Guðmundar A.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Nýt met var sett í fuglamerkingum í fyrra og voru merktir 21.470 fuglar af 85 tegundum. Í fyrra komu 52 aðilar að fuglamerkingunum. Aldrei áður hafa yfir 20.000 fuglar verið merktir hér á einu ári, að sögn Guðmundar A. Guðmundssonar, dýravistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann hefur umsjón með fuglamerkingum fyrir hönd NÍ.

Af einstökum fuglategundum var mest merkt af auðnutittlingum og voru merktir 8.784 einstaklingar af þeirri tegund. Guðmundur sagði að mikið væri merkt af spörfuglum hér á landi enda væri hægt að merkja þá allan ársins hring því margir þeirra væru staðfuglar og dveldu hér allan ársins hring. Mófuglar, sem flestir eru farfuglar, eru aðallega merktir hér sem ungar á sumrin.

Algengast er að fuglarnir séu merktir með númeruðum fótmerkjum. Þegar merktur fugl er endurheimtur er Náttúrufræðistofnun látin vita hvar fuglinn fannst, dauður eða lifandi. Þannig er hægt að fylgjast með ferðalögum fuglanna.

Það hefur aukist að íslenskir sjófuglar séu merktir með dægurritum. Það eru lítil rafræn tæki sem mæla ljós og tímasetja sólarupprás og sólarlag hvern dag. Út frá þeim gögnum er hægt að reikna hvar fuglinn var staddur hverju sinni og fræðast þannig um ferðir hans.

Í fyrra voru 1.584 lundapysjur merktar með málmmerki í samvinnu Náttúrustofu Suðurlands og Sæheima í Vestmannaeyjum. Þær hafa aldrei verið fleiri síðan árið 1996. Guðmundur sagði að vonandi væri það til marks um bætta afkomu lunda. Þeir hafa líkt og margar tegundir sjófugla á Suður- og Vesturlandi liðið afkomubrest síðan árið 2005 vegna hruns sandsílastofnsins. Sílið er mikilvæg fæða fyrir lundapysjur.

Guðmundur er að ganga frá skýrslu um fuglamerkingar 2017 og verður hún birt fljótlega á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands (ni.is).

Methafi í fuglamerkingum 2017

Ingvar Atli Sigurðsson, jarðfræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum, var afkastamesti fuglamerkingamaður landsins 2017. Hann merkti 3.649 fugla í fyrra. Ég merkti langmest af auðnutittlingum,“ sagði Ingvar. Hann er með nokkra fóðrara og fóðurbretti við húsið sitt í Breiðholti og líka í Vestmannaeyjum þar sem hann heldur einnig heimili. Ingvar setur sólblómafræ í fóðrarana og það laðar að auðnutittlinga, krossnefi og finkur. Þá bræðir hann tólg og hellir yfir rúsínur. Fuglarnir eru sólgnir í þessa orkuríku klumpa. Einnig gefur hann saxaðan mör, epli og brauð.

Fuglana sem Ingvar merkir fangar hann marga í gildru í Breiðholti í Reykjavík. Hún er með opi sem fuglarnir fara inn um. Ingvar tínir þá svo út og merkir með fótmerki áður en þeim er sleppt.

Ingvar merkti um 700 lundapysjur í Vestmannaeyjum í fyrra í samvinnu við Sæheima. Þá hefur hann merkt mikið af störum í Eyjum og Reykjavík, eitthvað af snjótittlingum, skógarþröstum og svartþröstum. Einnig flækinga eins og krossnefi og eina barrfinku 2017.

Ingvar hefur einnig fylgst með skrofuvarpinu í Ystakletti í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjar eru eini varpstaður skrofunnar á Íslandi. Ingvar sagði að annað árið í röð hefði endurheimst merkt skrofa í Vestmannaeyjabæ sem hann hefði merkt skömmu áður sem ófleygan unga.