Toppslagur ÍR og Haukar berjast um sigurinn í Dominos-deildinni í lokaumferðinni.
Toppslagur ÍR og Haukar berjast um sigurinn í Dominos-deildinni í lokaumferðinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Haukar eiga langbestu möguleikana á að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í Dominos-deild karla í körfuknattleik þegar lokaumferðin fer fram annað kvöld.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Haukar eiga langbestu möguleikana á að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í Dominos-deild karla í körfuknattleik þegar lokaumferðin fer fram annað kvöld.

Haukar eru með 32 stig, ÍR 30 og Tindastóll 30 en baráttan um efsta sætið stendur aðeins á milli Hauka og ÍR vegna innbyrðis úrslita þessara þriggja liða.

*Haukar fá Valsmenn í heimsókn á Ásvellina klukkan 19.15 annað kvöld og nægir sigur þar til að gulltryggja sér efsta sætið og heimaleikjaréttinn út úrslitakeppnina.

*Haukar yrðu líka meistarar þótt þeir töpuðu leiknum, svo framarlega sem annaðhvort ÍR eða Tindastóll tapar sínum leik.

*ÍR sækir Keflavík heim og þarf sigur til að eiga möguleika á efsta sætinu. Þá þurfa Haukar að tapa fyrir Val og Tindastóll að vinna Stjörnuna á Sauðárkróki.

Haukar eru nefnilega með betri útkomu innbyrðis gegn ÍR, ef liðin verða efst og jöfn með 32 stig.

* ÍR er hinsvegar með besta útkomu innbyrðis ef ÍR, Haukar og Tindastóll verða öll jöfn með 32 stig og það er eini möguleiki ÍR-inga á að ná efsta sætinu.

*KR er með 28 stig og mun enda í þriðja eða fjórða sæti. KR-ingar mæta Þór í Þorlákshöfn og geta náð ÍR og Tindastóli en aldrei farið uppfyrir bæði liðin. ÍR og Tindastóll gætu bæði farið niðurfyrir KR með ósigri og endað fjórða sæti.

*Njarðvík er með 24 stig og endar í fimmta sæti, svo framarlega sem liðið vinnur Hött á Egilsstöðum.

*Annars ná Grindvíkingar, sem líka eru með 24 stig, fimmta sæti með heimasigri gegn Þór frá Akureyri.

*Stjarnan er með 22 stig og gæti náð sjötta sæti með sigri á Tindastóli, en til þess þurfa bæði Njarðvík og Grindavík að tapa fyrir botnliðunum. Stjarnan lendir því að öllum líkindum í 7. sæti.

*Keflavík er í áttunda sæti með 20 stig og kemst ekki ofar. Það er því ljóst að Keflvíkingar munu mæta deildarmeisturunum í átta liða úrslitum, annaðhvort Haukum eða ÍR.

Mesta óvissan um annað til fjórða sæti

Fyrir lokaumferðina er því óhætt að segja að mesta óvissan sé hvernig liðin raðast upp í öðru til fjórða sæti. Það mun hinsvegar verða frekar óvænt ef röðin á liðunum frá fimmta til sjöunda sæti breytist, þ.e. Njarðvík, Grindavík og Stjarnan.

Möguleikarnir á einvígjum í átta liða úrslitunum eru sem hér segir, liðin sem eru í umræddum sætum fyrir lokaumferðina eru feitletuð:

Haukar /ÍR – Keflavík

ÍR /Haukar/Tindastóll – Stjarnan /Grindavík

Tindastóll /ÍR/KR – Grindavík /Njarðv./Stjarnan

KR /Tindastóll/ÍR – Njarðvík /Grindavík

Úrslitakeppnin hefst 15. mars og átta liða úrslitum lýkur í síðasta lagi 28. mars. Undanúrslitin hefjast síðan 4. apríl og úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn lýkur í síðasta lagi 30. apríl, ef til oddaleiks kemur.

Hamar, Vestri, Breiðablik og Snæfell hefja umspil um eitt úrvalsdeildarsæti 2. apríl en sigurliðið þar fylgir Skallagrími upp.