Þorsteinn Skúli Bjarnason fæddist 19. júní 1927. Hann lést 17. febrúar 2018.

Útför Skúla fór fram 2. mars 2018.

Í dag kveð ég vin minn Skúla og langaði mig til að skrifa nokkur orð og þakka fyrir okkar vináttu. Hann og Ásta áttu heima í næsta húsi við ömmu mína og afa og þegar hann sá mig koma heim úr skólanum kallaði hann alltaf á mig til að gefa mér nammi því hann sagði að Ásta ætti alltaf nammi í búrinu. Ég sagði nú ekki nei við því. Seinna eftir að við fluttum upp á Jóffa og ég labbaði framhjá húsinu þeirra á hverjum degi á leið heim úr Flensborg stoppaði ég oft hjá þeim ef þau voru utan dyra og hafði Skúli alltaf áhuga á hvað var að gerast í mínu lífi. Alltaf þótti mér vænt um að hann gaf sér tíma til að tala við mig og þó stundum bara að við veifuðum hvort til annars ef þau hjónin sátu inni í stofu. Ég þakka fyrir að hafa átt Skúla að góðum vin.

Guðbjörg Rúnarsdóttir.