Mistök David Byrne harmar að eingöngu karlar hafi unnið með honum að American Utopia. Byrne tók þátt í Listahátíð í Reykjavík árið 2010 og var myndin tekin af því tilefni.
Mistök David Byrne harmar að eingöngu karlar hafi unnið með honum að American Utopia. Byrne tók þátt í Listahátíð í Reykjavík árið 2010 og var myndin tekin af því tilefni. — Morgunblaðið/Ómar
Tónlistarmaðurinn David Byrne hefur beðist afsökunar á því að enga konu sé að finna á lista yfir þá sem komu að gerð nýjustu breiðskífu hans, American Utopia.

Tónlistarmaðurinn David Byrne hefur beðist afsökunar á því að enga konu sé að finna á lista yfir þá sem komu að gerð nýjustu breiðskífu hans, American Utopia. Byrne sendi frá sér yfirlýsingu á mánudag þar sem hann harmar þetta eftir að hafa nokkru fyrr þakkað samstarfsmönnum sínum í bloggi á netinu en þeirra á meðal eru Brian Eno, Dev Hynes, Sampha og Jack Penate. Nokkrir þeirra sem lásu bloggfærsluna bentu Byrne í framhaldi á að enga konu væri að finna á listanum yfir þá sem gerðu plötuna með honum, 25 karlar alls.

Byrne segir m.a. í yfirlýsingu sinni að jafnrétti og fjölbreytni séu honum mikilvæg og að kynjahalli sé vissulega vandamál í tónlistargeiranum. „Ég sé eftir því að hafa ekki ráðið til verksins konur og unnið með þeim að þessari plötu – það er fáránlegt og ekki lýsandi fyrir mig og engan veginn í takt við vinnubrögð mín í áranna rás,“ skrifar Byrne og fagnar því að vakin hafi verið athygli á þessum mistökum. Þá viðurkennir hann að með þessu sé hann orðinn hluti af vandanum, þ.e. að hafa ekki ráðið eina einustu konu. „Ég hef aldrei talið sjálfan mig í hópi „þessara náunga“ en býst við því að ég sé það upp að einhverju marki,“ skrifar Byrne en síðustu plötu sína, Love This Giant , vann hann í samstarfi við tónlistarkonuna St. Vincent.