[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Hið rótgróna verktaka- og þjónustufyrirtæki VHE í Hafnarfirði hefur um alllangt skeið átt í erfiðleikum með að standa skil á greiðslum til birgja og helsta lánveitanda síns. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Hið rótgróna verktaka- og þjónustufyrirtæki VHE í Hafnarfirði hefur um alllangt skeið átt í erfiðleikum með að standa skil á greiðslum til birgja og helsta lánveitanda síns. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins. Erfið staða fyrirtækisins rekur sig raunar allt aftur til bankahrunsins 2008 þegar erlend lán þess stökkbreyttust ásamt því að forsendubrestur varð fyrir ýmsum stórverkefnum sem það vann að á þessum tíma. Hjá fyrirtækinu starfa í dag í kringum 400 manns.

Þrátt fyrir ákveðna endurskipulagningu á skuldum fyrirtækisins sem ráðist var í árið 2013 finna birgjar og Landsbankinn enn fyrir því að fyrirtækið hefur skort lausafé til að standa undir afborgunum af lánum á réttum tíma og greiða undirverktökum vegna þeirra verka. Hefur Morgunblaðið undir höndum dæmi um að greiðslur til birgja fyrirtækisins hafi dregist svo mánuðum skiptir á síðustu misserum. Vegna greiðslutafa af lánaskuldbindingum fyrirtækisins hefur réttur bankans virkjast til gjaldfellingar. Bankinn hefur hins vegar ekki nýtt sér þá heimild enda ljóst að mikil verðmæti búa í fyrirtækinu sem glatast myndu ef rekstur þess myndi stöðvast.

Heildarskuldir VHE og dótturfélaga námu ríflega 10,1 milljarði í árslok 2016. Af því voru ríflega 6,4 milljarðar í formi langtímaskulda. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver skuldastaðan var um nýliðin áramót. Samkvæmt fyrrnefndum reikningi, sem ekki var skilað endurskoðuðum heldur aðeins með könnunaráritun löggilts endurskoðanda, kemur fram að á árinu 2017 var stefnt að því að greiða 274 milljónir af langtímaskuldum samstæðunnar í fyrra, afborgunin myndi nema 356 milljónum í ár, 407 milljónum á næsta ári, 645 milljónum árið 2020 og 315 milljónum árið 2021. Á árinu 2016 greiddi samstæða VHE allt 592 milljónir í vaxtagjöld, samanborið við 534 milljónir árið áður.

Eitt dótturfélagið ógjaldfært

Allt frá hruni hefur VHE átt í átökum við Landsbankann vegna hinna stökkbreyttu lána sem fyrirtækið sat uppi með. Nú í febrúar féll dómur í Hæstarétti í máli VHE gegn Landsbankanum er varðaði lánsfjármögnun á bryggjukrana sem félagið hafði keypt frá Þýskalandi. Vildi VHE meina að lánveitingin hefði í raun verið í íslenskum krónum en ekki erlendri mynt. Hæstiréttur tók þar undir sjónarmið Landsbankans og í kjölfarið var ljóst að Á.B. Lyftingar, sem er í eigu VHE stæði uppi með skuldir sem nema hátt í 400 milljónum króna. Fyrirtækið er því ógjaldfært og ljóst að það stefni í þrot að öllu óbreyttu. Ekki hefur fengist upp gefið hvaða áhrif niðurstaða dómsins hefur á VHE gagnvart Landsbankanum að öðru leyti.
Rótgróið félag
» VHE eða Vélsmiðja Hjalta Einarssonar var stofnuð árið 1971.
» Fyrirtækið hefur unnið brautryðjendastarf í þjónustu við álver víða um heim.
» Á nýrri öld sneri fyrirtækið sér í auknum mæli að byggingarframkvæmdum.
» Tæpur helmingur veltu þess kemur úr byggingargeiranum.