Þorsteinn Ágústsson
Þorsteinn Ágústsson
Eftir Þorstein Ágústsson: "Þessa dagana eru líklega að tapast 100 milljarðar eða meira vegna þess að ekki er rétt haldið á málum og ekki staðið með þjóðinni."

Öfundin.

Öfund, heift og hatur er því miður sterkur þáttur í eðli mannsins og öfundin er rót alls ills í veröldinni. Metnaður og kapp geta hins vegar verið góður drifkraftur fyrir framförum og betri lífskjörum fyrir þjóðina.

Á okkar góða landi fóru nokkrir einstaklingar offari í gróðafíkn, steyptu landinu í gjaldþrot og þáverandi ríkisstjórn Geirs H. Haarde svaf á verðinum, seðlabankastjórarnir höfðu varað við en ekki var hlustað. En þeir gerðu meira, undirbjuggu neyðaráætlun til varnar landi og þjóð sem var svo lögfest í formi neyðarlaganna 2008. En þeirra vinna var nú ekki metin meira en svo að þeir voru reknir.

Allir muna eftir Icesave-málinu. Steingrímur og Jóhanna vildu endilega borga óreiðuskuldir bankanna og setja þar með landsmenn í 100 ára fjötra. En þá reis upp hópur manna sem kallaði sig InDefence-hópinn, safnaði undirskriftum og fékk forsetann í lið með sér og í þremur þjóðaratkvæðagreiðslum var því afstýrt að þjóðin tæki þessar skuldir á sig.

Ef menn vilja læra eitthvað af því liðna er nauðsynlegt að rifja þetta upp öðru hverju. Upp úr hruni kom Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fram á sjónarsviðið í pólitíkinni og barðist fyrir ýmsu sem þótti nýstárlegt. Hann vildi standa á rétti þjóðarinnar, ekki hopa fyrir vogunarsjóðum. Flestir muna eftir kosningabaráttunni 2013 þegar hann var talinn lýðskrumari og lygari, en Sigmundur fékk góða kosningu og varð forsætisráherra. Með verkum sínum í baráttunni við vogunarsjóði endurheimti hann stóran hluta þess sem tapaðist í hruninu. Vogunarsjóðirnir undu því illa að smáríki eins og Ísland hefði betur í baráttunni um peningana. Þeir voru komnir með alla helstu almannatengla landsins í vinnu við áróður og alls konar undirróðursstarfsemi, ásamt því að fréttastofa RÚV virtist standa með þeim. Þeim tókst að æsa til öfundar og haturs, fengu óholla fréttamenn í lið með sér vegna þess að Sigmundur og Anna Sigurlaug áttu peninga í útlöndum. Þannig hefur þeim tekist ætlunarverkið að koma til valda hér í landi fólki sem þeir virðast hafa í vasanum. Í fersku minni eru auglýsingar sem birtust fyrir þingkosningarnar 2016 frá peningaöflum erlendis, sem þannig reyndu að hafa áhrif á úrslit þingkosninga í lýðræðisríki. Væri það verðugt rannsóknarefni fyrir fjölmiðla að rýna í það mál.

Þessa dagana eru líklega að tapast 100 milljarðar eða meira vegna þess að ekki er rétt haldið á málum og ekki staðið með þjóðinni. Því miður virðist vera auðvelt fyrir sterk peningaöfl að skapa andrúmsloft öfundar og haturs eins og tókst í apríl 2016. Afleiðingin er að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem hefur hvorki vilja, burði né þor til að standa á rétti þjóðarinnar.

Höfundur er bóndi.