Holóttir vegir Ástand vega í höfuðborginni þykir slæmt um þessar mundir. Fjölmargar tilkynningar hafa borist um tjón á bílum vegna þess.
Holóttir vegir Ástand vega í höfuðborginni þykir slæmt um þessar mundir. Fjölmargar tilkynningar hafa borist um tjón á bílum vegna þess. — Morgunblaðið/Hanna
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við erum með mál hjá okkur þar sem fólk hefur orðið fyrir verulegu tjóni og ábyrgð hefur verið hafnað,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum með mál hjá okkur þar sem fólk hefur orðið fyrir verulegu tjóni og ábyrgð hefur verið hafnað,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Vísar hann í máli sínu til ástands vega á höfuðborgarsvæðinu og tjóns sem ökumenn hafa orðið fyrir vegna hola sem myndast hafa á vegum.

Á þessum árstíma koma holur í ljós þegar snjóa leysir og algengt er að ekki sé brugðist við í tæka tíð með nauðsynlegum viðgerðum. Algengt er að dekk bifreiða skemmist og tjón verði á undirvögnum en í sumum tilvikum getur tjón orðið alvarlegra en það.

„Ástandið er hörmulegt og það er óþolandi að það þurfi að vera þannig ár eftir ár. Það sem er þó jákvætt er að veghaldarar hafa í ár sýnt meiri ábyrgð en oft áður. Bæði með því að vekja athygli vegfarenda á slæmu ástandi og með því að grípa fyrr inn í en oft áður til að tryggja að ekki verði meiri skaði,“ segir Runólfur. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hafa gjarnan komið upp tilvik þar sem deilt er um ábyrgð, tryggingafélög hafi krafist sönnunar þess að búið væri að tilkynna um holur á vegum til að þau telji sig bótaskyld. FÍB hefur nú látið gera app, Hola, þar sem hægt er að koma á framfæri tilkynningum um holur í vegakerfinu.

Ástand vega blasir við öllum

Samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið fékk frá Vegagerðinni í gær hafa það sem af er ári borist 95 tilkynningar um tjón vegna holuaksturs. Í fyrra bárust 179 slíkar tilkynningar allt árið og árið 2016 bárust 135 tilkynningar en árið 2015 var algert metár. Þá bárust 338 tilkynningar um tjón vegna holuaksturs, samkvæmt tölum Vegagerðarinnar.

Runólfur segir að ástand vega á höfuðborgarsvæðinu blasi við öllum. Tilkynningar berist þó líka um tjón á landsbyggðinni og fregnir berist af slæmu slitlagi um allt land. Rannsaka þurfi hvers vegna ástandið sé svona slæmt ár eftir ár.

„Og þá er það sem við höfum verið að ræða, hver er ábyrgð yfirvalda? Þau hafa með niðurskurði til viðhalds og framkvæmda valdið því í ákveðnum tilvikum að vegfarendur lenda jafnvel í stórtjóni með ökutæki sín. Fyrir utan það sem er alvarlegast, að þetta skapar hættu varðandi umferðaröryggi, hættu fyrir fólkið sjálft, segir hann.

„Það var tekin meðvituð ákvörðun um niðurskurð og menn báru fyrir sig hrun. Við erum nú að súpa seyðið af þessari ákvörðun, að draga úr viðhaldi og jafnvel að leggja þynnra slitlag en áður var gert. Er sanngjarnt að vegfarendur beri það tjón að fullu? Bera kjörnir fulltrúar ekki ríkari ábyrgð en fram hefur komið til þessa?“