[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson úr Keili virðist koma vel undan vetri miðað við skor hans á atvinnumannamóti á Spáni sem var hluti af Nordic League-mótaröðinni sem Axel vann á síðasta ári.

*Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson úr Keili virðist koma vel undan vetri miðað við skor hans á atvinnumannamóti á Spáni sem var hluti af Nordic League-mótaröðinni sem Axel vann á síðasta ári. Axel lék hringina þrjá á samtals fimm höggum undir pari og hafnaði í 14. sæti í mótinu. Axel er nú með keppnisrétt á Áskorendamótaröð Evrópu vegna árangurs síns í fyrra og verður með þá mótaröð í forgangi. GR-ingarnir Andri Þór Björnsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús komust ekki í gegnum niðurskurð á mótinu.

* Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í liði umferðarinnar í þýsku B-deildinni hjá Kicker eftir frammistöðu sína með Sandhausen gegn Aue um síðustu helgi. Rúrik skoraði þá mark Sandhausen í 1:1-jafntefli og í umsögn um hann segir að Rúrik hafi blómstrað í nýrri stöðu sem hægri bakvörður eftir að hann kom til liðsins og leiki vel í hverjum leik.

*Ástralskur markvörður, Jonathan Mark Faerber , hefur samið við knattspyrnudeild Keflavíkur til tveggja ára en hann spilaði með Reyni úr Sandgerði í 3. deildinni í fyrra. Faerber, sem verður þrítugur í vor, lék áður með liðum í neðri deildum í Þýskalandi. Hann mun keppa við Sindra Kristin Ólafsson , markvörð 21-árs landsliðs Íslands, um sæti í byrjunarliði Keflvíkinga.

* Theódór Elmar Bjarnason , landsliðsmaður í knattspyrnu, missti í gær í fyrsta skipti af leik með Elazigspor í tyrknesku B-deildinni en hann hafði verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum tímabilsins. Elmar meiddist á ökkla um síðustu helgi en sagði á Twitter að hann reiknaði með því að geta spilað á ný í næstu umferð.

*Tennisstjarnan Serena Williams snýr aftur á atvinnumótaröð kvenna í tennis í vikunni en fyrir utan tvíliðakeppni í síðasta mánuði hefur hún ekkert spilað frá því að hún eignaðist dóttur síðastliðið haust. Hún var rúmliggjandi í sex vikur eftir fæðinguna. „Ég er tilbúin núna, annars væri ég ekki hér. Ég mun verða betri eftir tvo mánuði en ég er núna, en einhvers staðar verð ég að byrja,“ sagði Serena í gær.