Nýflutt út Alexandra og Kristó, Sigrúnu Dís og Embla Marín og aupair-stúlkan Birgitta Rún Guðmundsdóttir.
Nýflutt út Alexandra og Kristó, Sigrúnu Dís og Embla Marín og aupair-stúlkan Birgitta Rún Guðmundsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að uppgötva kírópraktík var ákveðin opinberun fyrir Alexöndru Ósk Ólafsdóttur. Hún áttaði sig á að það væri akkúrat greinin sem hún hefði verið að leita að til að mennta sig.

Að uppgötva kírópraktík var ákveðin opinberun fyrir Alexöndru Ósk Ólafsdóttur. Hún áttaði sig á að það væri akkúrat greinin sem hún hefði verið að leita að til að mennta sig. Hún sótti um í skóla í Bournemouth í Bretlandi og komst inn, og við tók nýtt ævintýri í nýju landi fyrir litlu fjölskylduna. Og framtíðin er björt.

Katrín Lilja Kolbeinsdóttir

katrinlilja1988@gmail.com

Alexandra Ósk Ólafsdóttir ólst upp í Breiðholti þar sem hún gekk bæði í grunn- og framhaldsskóla. Á framhaldsskólaárunum kviknaði áhugi Alexöndru á mannslíkamanum og hvernig hægt er að vinna með hann. Hún stundaði nám á íþróttabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2012. Með námi starfaði hún hjá fimleikadeild Fylkis þar sem hún þjálfaði fimleika, allt frá grunnhópum og upp í meistarahóp en að sögn Alexöndru hefur hún alltaf verið mikil íþróttamanneskja og æfði sjálf fimleika á yngri árum.

Hún vissi því alltaf að hún myndi enda á að starfa innan heilbrigðisgeirans og var því staðráðin í að íþróttabraut væri fyrir sig.

„Ég íhugaði að læra sjúkraþjálfun eða hjúkrunarfræði, en fannst það samt aldrei nógu spennandi til að stökkva á það. Ég ákvað því að halda áfram að þjálfa þangað til ég myndi átta mig betur á því hvað ég vildi læra. Í maí árið 2014 komst ég að því að ég og unnusti minn, Kristófer Númi, ættum von á barni. Við tók dásamlegt fæðingarorlof með Sigrúnu Dís dóttur okkar, en Kristó nýtti orlofið meðal annars til að klára BA í lögfræði frá Háskóla Íslands. Rétt fyrir eins árs afmæli Sigrúnar Dísar komumst við að því að fjölskyldan kæmi til með að stækka ennþá frekar. Báðar meðgöngurnar gengu svo ótrúlega vel að ég gat þjálfað fimleika nánast fram á síðasta dag. Í byrjun árs 2016 fengum við svo aðra stúlku í hendurnar, hana Emblu Marín, og hjartað okkar stækkaði enn meira“

Kláraði prófin kasólétt

Á meðan Alexandra gekk með seinna barn sitt uppgötvaði hún kírópraktík og segir hún það hafa verið ákveðna opinberun.

„Ég áttaði ég mig á því að það væri sennilega akkúrat greinin sem ég hafði verið að leita að,“ segir Alexandra sem ákvað því að prófa að sækja um í skóla í Bretlandi.

„Ég sótti um skóla hér í Bournemouth og fékk svar til baka um að ég þyrfti að hafa meiri bakgrunn í líffræði og lífeðlisfræði til að fá inngöngu beint inn á fyrsta árið. Námið samanstendur af fimm árum, en ef nægilegur líffræðigrunnur er fyrir, þá er möguleiki að vera metin inn á fyrsta árið, í stað þess að vera valin inn í svokallað núll ár, sem er nokkurskonar undirbúningsár. Ég lét ekki segja mér það tvisvar og skellti mér aftur á skólabekk í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, í þetta skiptið í nokkra mismunandi líffræðiáfanga. Kasólétt náði ég að klára desemberprófin, en fæðingin var sett 2. janúar. Ég var alveg orðin staðráðin í að komast inn í þennan skóla, enda mjög virtur skóli á þessu sviði. Á þessum tíma var ég komin framyfir settan dag og því hjálpaði Kristó mér svakalega mikið við umsóknarferlið, senda út pappíra, fá meðmælabréf og annað sem þurfti að fylgja umsókninni.“

Hvað verður um stelpurnar?

Alexandra fór létt með inngönguviðtalið sem fór fram í gegnum Skype og var henni veitt innganga tveimur dögum eftir það.

„Gleðin leyndi sér ekki á heimilinu og samdægurs fórum við að skoða íbúðir í Bournemouth. Eftir boð um inngöngu í skólann þá var þetta aldrei spurning, við ætluðum að flytja öll saman út og upplifa nýtt ævintýri. Við fluttum því út um haustið 2016 með eina 2 ára og aðra 7 mánaða. Ég viðurkenni samt að við fengum oft spurningar frá vinum og fjölskyldu eins og „hvernig ætlið þið að fara að þessu? „hvað verður um stelpurnar? og slíkt, en það er skemmst frá því að segja að þessi tími hefur gengið alveg ótrúlega vel bæði í námi og utan náms með stelpurnar. Okkur líkar alveg afskaplega vel. Bournemouth er skemmtilegur strandbær á suðurströnd Bretlands, ekki of stór en að sama skapi ekki of lítill og hér er hægt að finna sér nóg að gera. Þó svo að öll fjölskyldan okkar sé heima á Íslandi, þá erum við búin að skapa okkur ósköp notalegt heimili hér og höfum það mjög gott. Það tekur okkur til að mynda tvær mínútur að komast í sand og sjó og það er eitt af því sem stelpurnar okkar elska.“

Þess virði að leggja á sig

Fyrsta árið voru Alexandra og Kristófer bæði í námi og réðu sér au pair til þess að hjálpa sér með stelpurnar. Kristófer útskrifaðist með meistaragráðu í alþjóðlegum fjárfestingum og var í kjölfarið boðið starf hjá JP Morgan-fjárfestingabankanum, en Alexandra hélt kírópraktornáminu áfram. Hún segir námið eiga mjög vel við sig.

„Aðeins er kennd kírópraktík í skólanum og því eru allir nemendur skólans að fara í gegnum sama prógramm. Lokaárið er nokkurskonar starfsnám, en þá vinnur maður sem nemi á stofu sem skólinn rekur og þá er maður að vinna sem kírópraktor að sjá um sína sjúklinga. Við sem erum styttra komin getum svo alltaf fengið að fylgjast með á klínikinni og fengið innsýn í það hvernig er að sinna alvörusjúklingum með alvöruvandamál. Það er ágætis tilbreyting að líta upp úr bókunum og fá að sjá hvað við munum gera sem kírópraktorar í framtíðinni,“ segir Alexandra og bætir við að námið sé mjög skipulagt og blandað af bóklegu og verklegu.

„Strax frá fyrstu önn fær maður tilfinningu fyrir því hvernig það er að vera kírópraktor og hvað felst í starfinu. Bóklegu áfangarnir eru fjölþættir og krefjandi, en við þurfum að læra mikla meinafræði og lífeðlisfræði ásamt því að kunna líffærafræði (anatomy) upp á 10. Mikið af þessu er ekki ólíkt læknisfræði því við verðum að kunna að bera kennsl á sjúklinga og meta hvort þeir þurfi að komast undir læknishendur eða hvort við getum aðstoðað þá með stoðkerfis-vandamál sín. Verklega námið er augljóslega langskemmtilegast, þá erum við að læra að þekkja merki líkamans ef eitthvað er að og hvernig við getum reynt að bæta það. Við lærum mörg vöðvapróf, taugapróf og fleira. Sem við nýtum til að komast að greiningu á sjúklingnum okkar. Námið er mjög erfitt en með skipulagi, metnaði og þrautseigju er allt hægt. Þó að skóladagarnir séu oft langir og erfiðir, þá er þetta svo skemmtilegt að það er algjörlega þess virði að leggja alla þessa vinnu á sig.“

Alþjóðlegt líf framundan

En hvað skyldi svo taka við eftir útskrift?

„Ég hef alltaf einblínt á að lifa í núinu og er því ekki mikið farin að spá í lífið eftir útskrift. Ég á ennþá tvö og hálft ár eftir og ætla að njóta þess á meðan ég get. Auðvitað sé ég sjálfa mig vinna sem kírópraktor í framtíðinni, annars væri ég ekki að þessu, en hvar í heiminum er ennþá óljóst. Kristó er að vinna í alþjóðlegum banka og algengt að fólk flytjist á milli staða og því er allt opið í þessu. Hugurinn leitar þó alltaf heim en við viljum samt halda öllum dyrum opnum. Okkur líður vel úti í heimi og getum alveg séð fyrir okkur að flytja eitthvert annað eftir útskrift eða jafnvel stoppa lengur hér í Bretlandi. Þetta á allt eftir að koma í ljós með tímanum og við tökum bara framtíðinni fagnandi.“