Mark Cristiano Ronaldo skallar boltann í mark París SG í leiknum í Frakklandi í gærkvöld og kemur Real Madrid yfir snemma í síðari hálfleik.
Mark Cristiano Ronaldo skallar boltann í mark París SG í leiknum í Frakklandi í gærkvöld og kemur Real Madrid yfir snemma í síðari hálfleik. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Meistaradeild Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Liverpool og Real Madrid urðu í gærkvöld fyrstu liðin til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu en þá fóru fram fyrstu leikirnir í seinni umferð sextán liða úrslitanna.

Meistaradeild

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is Liverpool og Real Madrid urðu í gærkvöld fyrstu liðin til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu en þá fóru fram fyrstu leikirnir í seinni umferð sextán liða úrslitanna.

Real Madrid stóð vel að vígi eftir 3:1 sigur í fyrri leiknum á Santiago Bernabéu og ekki bætti úr skák fyrir Parísarbúa að Neymar skyldi vera úr leik vegna meiðsla.

Cristiano Ronaldo kom Real yfir í byrjun síðari hálfleiks og um hann miðjan misstu Frakkarnir Marco Verratti af velli með rautt spjald. Edinson Cavani jafnaði þó rétt á eftir en Casemiro skoraði sigurmark Spánverjanna tíu mínútum fyrir leikslok, 2:1.

Þetta var tólfta markið hjá Ronaldo í Meistaradeildinni í vetur og hann hefur gert fimm mörkum meira en næstu menn, Edinson Cavani hjá París SG, Harry Kane hjá Tottenham og Roberto Firmino hjá Liverpool. Þá hefur Ronaldo náð að skora í níu leikjum Real Madrid í röð í keppninni og jafnaði met Ruuds van Nistelrooy.

Þægilegt hjá Liverpool

Liverpool mætti til leiks á Anfield í ansi þægilegri stöðu eftir að hafa gjörsigrað Porto, 5:0, í fyrri leiknum á útivelli. Markalaust jafntefli varð niðurstaðan í heldur tilþrifalitlum leik.

Litlu munaði þó að Danny Ings tryggði Liverpool sigurinn undir lokin en hinn gamalreyndi Iker Casillas í marki Porto varði þá skalla hans á glæsilegan hátt.

Með þessu er löng bið stuðningsmanna Liverpool á enda en níu ár eru síðan lið þeirra komst síðast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Það var vorið 2009 þegar Liverpool vann Real Madrid 5:0 samanlagt í sextán liða úrslitum en féll gegn Chelsea, 5:7 samanlagt, í átta liða úrslitum.

Ólíkir leikir á Englandi í kvöld

Sextán liða úrslitin halda áfram í kvöld með tveimur leikjum á Englandi en óhætt er að segja að spennustigið verði ólíkt í London og í Manchester.

Tottenham tekur á móti Juventus á Wembley og þar verður um hörkuviðureign að ræða, enda lyktaði fyrri leiknum í Tórínó með jafntefli, 2:2. Tottenham gerði þá vel að vinna upp tveggja marka forskot sem ítölsku meistararnir náðu snemma leiks.

Manchester City fær svissnesku meistarana Basel í heimsókn og þar er nánast um formsatriði að ræða. City vann fyrri leikinn í Sviss, 4:0, og á sæti í átta liða úrslitunum næsta víst.

Fjórir síðustu leikir 16-liða úrslitanna fara síðan fram á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku. Manchester United – Sevilla (0:0) og Roma – Shakhtar Donetsk (1:2) á þriðjudag og Besiktas – Bayern München (0:5) og Barcelona – Chelsea (1:1) á miðvikudag.